Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Missti trúverðugleikann í síðustu ríkisstjórn

20.05.2016 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að fylgistap Samfylkingarinnar skýrist að stórum hluta af því að flokkurinn hafi misst trúverðugleikann í síðustu ríkisstjórn undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Flokkurinn hafi lofað of miklu.

Samfylkingin virðist róa lífróður því fylgi flokksins er á hraðri niðurleið. Fylgið er komið vel undir 10 prósent. Gunnar Helgi segir að það verði að skoða fylgi flokksins yfir lengri tíma til að átta sig á því sem er að gerast núna. Jóhanna Sigurðardóttir hafi skilað flokknum fyrir kosningarnar 2013 með 12,9 prósenta fylgi. Þá hafði það fallið úr tæplega 30 prósentum. Erfitt sé að stjórna á krepputíma og ljóst hafi verið að það þyrfti að taka óvinsælar niðurskurðarákvarðanir.

„Þar að auki mistókst henni svolítið væntingastjórnunin. Stjórnin tók við og lofaði að gera meiriháttar umbreytingar á íslensku samfélagi í staðinn fyrir að lofa bara því að halda sjó, sem er það besta sem þú getur gert í kreppu,“ segir Gunnar Helgi.

Lofuðu of miklu

Flokkurinn hafi í raun lofað of miklu. Fylgistap Samfylkingarinnar skilji eftir stórt gat í íslenska flokkakerfinu. Ýmsir aðrir flokkar eygi möguleika á að sækja á þau mið. Besti flokkurinn hafi nýtt sér þetta, einnig Björt framtíð og nú Píratar. 

„Það sem hefur hins vegar gerst er að Samfylkingin missti trúverðugleikann. Hvort að hún geti unnið þann trúverðugleika aftur er eiginlega eitthvað sem er ekki hægt að svara. Ég held að það sé hins vegar mjög ólíklegt að Samfylkingin muni vinna sinn trúverðugleika með því að apa eftir þeim flokkum sem fylltu upp í tómarúmið því þeir hafa bara eðli málsins samkvæmt miklu meiri trúverðugleika sem ferskt afl,“ segir Gunnar Helgi.

Gunnar Helgi segir að ef Samfylkingin ætli að ná sínu fyrra fylgi sé eðlilegt að hún stígi inn í það hlutverk að vera hefðbundinn jafnaðarmannaflokkur. Svo virðist sem ekki sé samkomulag um það. Hver höndin upp á móti annari og engin geti fullyrt að það sé leiðin sem hún muni fara. Þó að Samfylkingin hafi aukið fylgi í síðustu kosningum miðað við kannanir hafi flokkurinn ekki náð aftur trúverðugleika.

„Hann lofaði í raun og veru allt of miklu. Hann lofaði því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, skjaldborg um heimilin í landinu, norrænu velferðarríki og nýrri stjórnarskrá. Þessir draugar eru að elta flokkinn,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson.

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV