Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Missa reglulega samband við umheiminn

13.03.2018 - 11:48
Mjóifjörður á Austurlandi
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Íbúar í Mjóafirði á Austurlandi eru langþreyttir á sambandsleysi á svæðinu, sem þeir segja að hafi verið viðvarandi vandamál síðustu ár. Þegar sambandið dettur út má segja að íbúarnir missi allt samband við umheiminn – netið dettur út og hvorki er hægt að nota GSM- síma né heimasíma. Í firðinum búa tólf manns á aldrinum 14 – 90 ára.

Hættulegt að svo afskekktur staður sé sambandslaus

Til Mjóafjarðar er bara hægt að komast sjóleiðis yfir vetrartímann svo ef sambandið fer er einangrunin algjör. Erna Ólöf Óladóttir, ein íbúanna, segir augljóst að það bjóði hættunni heim að svo afskekktur staður sé sambandslaus. Hún hefur undanfarna mánuði haldið dagbók yfir sambandsleysið.

„Á þessu ári hefur fimm sinnum orðið algjörlega sambandslaust hér á svæðinu, alltaf í nokkrar klukkustundir í senn. Í eitt skiptið varði sambandsleysið í yfir sólarhring með tilheyrandi óþægindum. Þegar ástandið er þannig er eina tenging okkar við umheiminn talstöð úti í bát þar sem við getum kallað upp vaktstöð siglinga. Annars er sambandið ekkert,“ segir Erna.

Mynd með færslu
Erna Ólöf hefur skráð hjá sér sambandsleysið síðustu mánuði.  Mynd: Erna Ólöf Óladóttir - Sambandsleysið skráð

Óöryggið það versta

Hún segir að síðustu fimm ár hafi sambandið dottið út með reglulegu millibili bæði yfir vetrar- og sumartímann. Veður og ísing hafi áhrif en stundum séu það einfaldlega bilanir eða óvirkar vélar sem valda sambandsleysinu. Það hefur áhrif á fyrirtækjarekstur, skólahald og daglegt líf. 

„Það versta við sambandsleysið er óöryggið. Það er gríðarleg óvissa til staðar hjá okkur. Við vitum aldrei hvernig sambandið verður. Við sem búum hér höfum flest verið hér alla ævi svo við þekkjum aðstæður en auðvitað getur allt gerst,“ segir Erna.

Kalla eftir úrbótum

Íbúar hafa ítrekað óskað eftir umbótum hjá sveitarfélaginu Fjarðabyggð, Mílu og Póst – og fjarskiptastofnun en Erna segir lítið aðhafst.

„Það er alltaf verið að segja okkur að það eigi að fara að gera eitthvað, og veita okkur von, en svo er ekki staðið við það. Þetta er auðvitað öryggisatriði, að hafa að minnsta kosti símasamband í heimasíma.“

 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV