Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Missa jafnvel heilu veturna úr grunnskóla

03.11.2016 - 19:24
Frá Breiðholti. Mynd úr safni. - Mynd: rúv / rúv
Þau börn sem alast upp í Reykjavík samtímans hafa misgóð spil á hendi. Hundruð barna í borginni búa við fátækt og bága félagslega stöðu. Í nýrri skýrslu sem gefin er út á vegum Rauða krossins og ber yfirskriftina Fólkið í skugganum er horft til þeirra hópa sem búa við bág kjör, nú þegar blússandi uppgangur er í þjóðfélaginu. Sérstaklega er fjallað um börn sem standa höllum fæti í Efra-Breiðholti.

„Þetta hættir fljótlega að skipta þau máli“

Í Efra-Breiðholti búa börn sem sum hver hafa fengið fátækt og félagslega einangrun í arf, börn sem missa heilu veturna úr grunnskóla, eiga erfitt með að fóta sig og falla jafnvel milli skips og bryggju í kerfinu. 

„Manni sýnist að bilið sé að breikka og hann sé að stækka þessi undirhópur. Í borginni og þá að verulegu leyti í Efra-Breiðholti, er verið að ala upp mörghundruð börn til varanlegrar fátæktar. Þetta eru ungir krakkar, búa hjá ungum ómenntuðum mæðrum sem eru ýmist á framfærslu eða á atvinnuleysisbótum. Þessir krakkar fara síður á leikskóla, taka síður þátt í skipulögðu íþrótta og tómstundastarfi, eru ekki í tónlistarnámi. Þetta þýðir að þau hafa miklu takmarkaðri aðgang að svona þessum félagsnetum og menningarlegu gæðum sem aðrir hafa. Ef þú ert alinn upp við að hafa ekki þennan aðgang hættir hann fljótlega að skipta máli og þú útilokar þig frá honum.“

Segir Ómar Valdimarsson, mannfræðingur og höfundur skýrslunnar.  

Verða frekar fyrir einelti

Sérfræðingar segjast merkja aukna stéttaskiptingu í íslensku samfélagi og rannsóknir renna stoðum undir það. Hlutfall barna sem líður skort hér á landi hefur farið hækkandi, þetta átti við um 4% barna árið 2009, nú á það við um 9%. Það hlutfall sem líður verulegan skort hefur þrefaldast og er nú 2,4%. Þessi börn einangrast frekar félagslega, þar sem þau geta ekki stundað íþróttir og tómstundastarf líkt og efnaðri bekkjarfélagar þeirra. Þá verða þau að sögn Ómars frekar fyrir einelti. Hann ræddi við nokkur barnanna. 

„Fæst vilja mikið við mann tala, það eru frekar þeir krakkar sem átta sig á stöðunni og eru að reyna að teygja sig inn í ákveðna hópa, hvort sem það eru tungumála- eða etnískir hópar. Það eru margir bjartir, kraftmiklir og áhugasamir krakkar í Breiðholtinu en þau eiga líka svolítið erfitt að ná í þennan hóp, það er mjög erfitt að draga fram þá sem eru í skugganum.“

Krakkarnir geta orðið afskiptir, foreldrarnir eru önnum kafnir við að láta enda ná saman og hafa hvorki tíma né getu til þess að sinna börnum sínum eins og þarf. Bein tengsl eru á milli fátæktar og félagslegrar einangrunar, einangrunin gerir fólki erfiðara um vik að breyta stöðu sinni og vandinn flyst á milli kynslóða og viðheldur stéttaskiptingu í samfélaginu. 

Bæði ljós og skuggar

Efra-Breiðholt er fjölbreytt hverfi þar sem fjórðungur íbúa er af erlendum uppruna. Í mörgum skólum er hlutfall erlendra barna mun hærra, 60-80%. Nemendur Fellaskóla eiga sér 23 móðurmál. Hlutfall fólks með geðraskanir er hærra en í öðrum hverfum borgarinnar, það sama á við um hlutfall einstæðra mæðra sem fá fjárhagsstyrk. Menntunarstig er lágt, 72% íbúa hefur einungis lokið grunnskólaprófi og 6% háskólaprófi. Þá er hlutfall láglaunafólks er hátt. Hlutfall barnafjölskyldna sem býr í félagslegu húsnæði hærra en í öðrum hverfum. Í Breiðholti er minni ásókn í frístundaheimili en annars staðar, börn taka síður þátt í sumarnámskeiðum, þar er vaxandi fjöldi eldri borgara á varanlegri framfærslu og stækkandi hópur innflytjenda á lífeyrisaldri sem á hvorki bótarétt hér né í heimalandinu. Spegilinn spyr: Hefur borgaryfirvöldum mistekist að koma í veg fyrir að Breiðholtið yrði einhvers konar gettó?

„Ég held að Gettó sé of harkalega til orða tekið. Efra-Breiðholtið er margskipt og í ákveðnum hlutum býr fólk við betri efnahagslegar aðstæður. Ég hitti fólk í þessari rannsókn, sem þekkir vel til og fullyrti að mestu skipulagsmistök sem gerð hafi verið í Reykjavík um áratuga skeið hafi verið að flytja Höfðaborgina upp í Fell. Ég bjó sjálfur þarna um tíma og veit að þarna er mjög víða erfitt ástand.“

Segir Ómar. 

Höfðaborgin var þyrping lítilla íbúða sem reistar voru, skammt ofan Höfða. Þær voru hugsaðar til bráðabirgða, áttu að leysa úr húsnæðisskortinum sem til staðar var í Reykjavík á stríðsárunum. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Síðasta húsið í Höfðaborg. Fátækrahverfi borgarinnar.

Óskar Dýrmundur Ólafsson, Framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, segir dýnamíkina og gróskuna eitt aðaleinkenni hverfisins, henni fylgi bæði styrkleikar og veikleikar. Breytingarnar á samfélagsgerðinni hafi verið hraðar síðastliðinn áratug, álíka hraðar og þegar Breiðholtið var að byggjast upp á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

Mynd með færslu
 Mynd:
Breiðholt árið 1978.
Séð yfir Reykjavík eftir Bústaðavegi. Breiðholt í fjarska.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Breiðholt í dag.

Fátækt hefur lengi verið vandamál í Breiðholti. 

„Það er gömul arfleifð hér frá þeim tíma þegar félagslegt húsnæði var byggt, samþjappað í miklum mæli. Við höfum verið að reyna að vinda ofan af því hægt og rólega. Þar er talað um þessar félagslegu erfðir þar sem fjölskyldur festast í fátæktargildru. Hættan er sú að ef við náum ekki upp tengslum í samfélaginu þar sem nýir íbúar fá hlutverk og hlutdeild í því samfélagi sem þeir eru að koma inn í þá myndast ákveðið rof, það er hætt við því að sagan endurtaki sig. Við erum að reyna að vinna gegn því að slíkar aðstæður komi upp hjá nýjum íbúum í hverfinu.“

Segir Óskar. 

Margtyngd en í erfiðleikum með að tjá sig

Í hverfinu eru auðvitað börn sem standa styrkum fótum, það á við um meirihlutann, önnur eiga undir högg að sækja, eiga erfitt með að fóta sig, oft vegna tungumálaerfiðleika, þeirra eigin eða foreldranna. Þau eru kannski margtyngd en hafa ekki fyllilega náð tökum á neinu tungumáli. Í skýrslunni segir að starfsmenn og sérfræðingar félagsþjónustunni viðurkenna vanmátt sinn og úrræðaleysi gagnvart þessu fólki. Í skýrslunni kemur fram að þessi staða beini athyglinni að nauðsyn þess að efla móðurmálskennslu í skólum því börn sem ekki hafi vald á eigin móðurmáli geti seint náð valdi á íslensku. 

Óskar segir skólakerfið skipa lykilhlutverk, þegar kemur að því að vinna gegn neikvæðum áhrifum fátæktar og menntunarskorts. Ráðist hefur verið í verkefni tengd menntun þar sem reynt hefur verið að efla íslenskuþekkingu og menntunarstig almennt. Annað verkefni tengist geðheilsu, Geðheilsustöð Breiðholts, snemmtækt úrræði, hefur orðið til þess að leguplássum á Geðdeild Landspítala hefur fækkað um 30% og lífsgæði fólks hafa aukist. 

Mæta jafnvel ekki í skólann

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Belinda Karlsdóttir.

 

Belinda Karlsdóttir er forstöðumaður tveggja unglingasmiðja sem reknar eru í Reykjavík. Önnur er í Breiðholtinu, hin í Borgartúni. Smiðjurnar eru félagslegt úrræði, þjónustumiðstöðvar beina þangað unglingum sem búa við félagslega einangrun, glíma við kvíða- og þunglyndi og eru með slæma sjálfsmynd. Sumir hafa þróað með sér skólafælni, eru hættir að mæta í skólann. 

„Það kemur fyrir að hingað séu að koma krakkar sem hafa ekki mætt í skólann lengi. Því lengur sem þú ert frá því erfiðara er að fara aftur. Stundum höfum við náð til þeirra krakka þannig að þau séu að mæta til okkar en kannski ekkert annað. Von okkar er þá að það hjálpi þeim að taka skrefin inn í skólann aftur. Skólarnir náttúrulega tilkynna til barnaverndar þegar mæting er orðin mjög slök, þá fer eitthvað í gang. Fyrir það er oft búið að vinna einhverja vinnu gegnum þjónustumiðstöðvar. Það eru til verkefni eins og morgunhaninn þar sem fólk aðstoðar börn og unglinga við að fara á fætur og í skólann. Við þurfum kannski meiri svoleiðis aðstoð, inn á heimilin, svo það séu ekki alltaf foreldrarnir sem taka þennan slag.“ 

Sumir unglinganna búa við fátækt, aðrir ekki. Belinda telur félagslega einangrun hafa aukist og tengir það því að ungt fólk í dag hefur í auknum mæli samskipti í gegnum tölvur og síma. Hún segir margt gott í gangi en langir biðlistar hafi neikvæð áhrif. Mál barna þvælist oft lengi í kerfinu og á meðan vaxi vandinn. Unglingarnir sem taka þátt í smiðjunum eru flestir af íslenskum uppruna. Belinda hefur áhyggjur af því að hugsanlega nái úrræðið ekki til allra. 

„Ef foreldrar eru ekki með gott aðgengi að samfélaginu hefur það líklega áhrif á börnin.“

Hún segir úrræðið mjög árangursríkt. Krakkarnir sem gangi út á vorin séu ekki alltaf þeir sömu og byrjuðu á haustin. Það skipti svo miklu máli að fá að tilheyra. Sumir foreldrar tali um að þetta hafi einfaldlega bjargað lífi barna þeirra. 

Húsnæðisskortur sameiginlegt vandamál allra

Í skýrslunni kemur fram að ógnvænlegur húsnæðisskortur standi öllum þeim hópum sem hún snertir á fyrir þrifum. Sanngjarnar og viðráðanlegar lausnir í húsnæðismálum séu augljóslega ein brýnasta þörf samtímans. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV