Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Misnota vanþekkingu og tungumálaerfiðleika

24.10.2013 - 19:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Algengt er að útlendingar greiði milligöngumönnum mútur til að fá vinnu. Doktorsnemi frá Póllandi sem hefur rannsakað stöðu pólskra innflytjenda á Íslandi segir atvinnurekendur geta komið í veg fyrir að slíkt gerist.

Lögreglunni á Vestfjörðum barst á dögunum bréf þar sem fullyrt var að pólskur verkstjóri fiskvinnslufyrirtækis hefði látið landa sína, sem hann hafði milligöngu um að útvega vinnu, greiða sér eitt þúsund evrur, eða sem samsvarar hundrað sextíu og fimm þúsund íslenskum krónum. Ef rétt reynist þá er athæfið ólöglegt en lögreglan segir að ekki hafi borist nein kæra og engin formleg rannsókn sé í gangi.

Í rannsókn Kára Gylfasonar um sögu pólskra innflytjenda, sem gerð var fyrir nokkrum árum, var meðal annars rætt við innflytjendur, starfsmenn ráðningarskrifstofa og fyrirtækja. Þar kom í ljós að „greiðsla umboðslauna virðist hafa verið afar algeng og líklegt að meirihluti þeirra sem hingað komu hafi þurft að greiða milligöngumanni. Sumir þessara milligöngumanna .... högnuðust á vanþekkingu innflytjenda og tungumálaerfiðleikum og sáu sér því hag í því að halda þeim einangruðum."

Mikilvægt að vinnuveitendur fylgist með
Anna Wojtynska doktorsnemi í mannfræði við Háskóla Íslands segir að svona lagað tíðkist. „Það er erfitt að segja að þetta sé alsiða en þetta á sér stað meðal Pólverja og annarra innflytjenda.“ Ekki sé eingöngu hægt að skrifa þetta á menningarmun, fólk reyni að fóta sig í ákveðnum aðstæðum. 

Anna hefur rannsakað stöðu pólskra innflytjenda á Íslandi - hún segir mikilvægt að yfirvöld og sérstaklega vinnuveitendur fylgist með því að fólk misnoti ekki aðstöðu sína. „Eina leiðin er líklega að atvinnurekendur auglýsi störf og taki fram að svona lagað sé ekki leyfilegt. Vinnuveitendur segjast ekkert vita en auðvitað vita þeir það stundum. Því meiri upplýsingar eru fyrir hendi þeim mun ólíklegra verður að fólk fari aðrar leiðir eða selji slíkar upplýsingar. Það yrði engin þörf á slíku. Þegar við vitum að hægt er að fá sömu vinnu með öðrum hætti virkar það dálítið ósiðlegt að gera þetta að atvinnugrein.“