Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mismunun að láta Íslendinga greiða minna

09.07.2014 - 20:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Mismunun felst í því að Íslendingar greiði lægra verð en útlendingar fyrir innanlandsflug, líkt og raunin er hjá flugfélaginu Erni. Það brýtur í bága við fjórfrelsisákvæði EES-samningsins, nema fyrir liggi hlutlæg sjónarmið sem réttlæti slíkt.

Íslendingar greiða jafnvel helmingi lægra verð fyrir flug á vegum flugfélagsins Ernis heldur en útlendingar. Forstjóri flugfélagsins telur það eðlilegt, enda sé flugið niðurgreitt með skattfé Íslendinga.

Gunnar Þór Pétursson, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, bendir á að í mörgum tilfellum sé ólík verðlagning réttlætanleg. Sé þjónusta hins vegar seld á sömu forsendum, á sama tíma, en á mismunandi verði fyrir Íslendinga annars vegar og útlendinga hins veger sé það brot á fjórfrelsisákvæðum EES-samningsins. Hann telur þau rök ekki halda, að flugið sé niðurgreitt með skattfé og Íslendingar ættu því að greiða það lægra verði. „Það, að tryggja að skattfé nýtist bara Íslendingum er í fljótu bragði ekki hlutlægt mat, enda nýtum við skattfé til ýmissa hluta, svo sem eins og til að byggja vegi sem allir fá að nota jafnt.“

Hann telur ólíklegt að Íslendingar myndu láta sér lynda að borga hærra verð en aðrir á ferðalögum um Evrópu. „Tökum sem dæmi Eyrarsundsbrúna milli Danmörkur og Svíþjóðar. Við yrðum ekki sátt við að greiða hærra verð en Danir og Svíar fyrir að fara yfir þá brú, jafnvel þó hún hafi verið byggð fyrir skattfé þessara ríkja."