Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mismunun að bara sumir megi bera ættarnöfn

20.02.2018 - 08:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er augljós mismunun að sumir megi bera ættarnafn og aðrir ekki, segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði. Hann er hlynntur lagafrumvarpi Þorsteins Víglundssonar um að leggja niður mannanafnanefnd og auka frelsi í nafngiftum þannig að lögin takmarki ekki persónufrelsi fólks. Þorsteinn vill fellur úr gildi þá skyldu að kynbinda kenninöfn barna til foreldra. Eiríkur segir enga ástæðu til ætla að íslenskri tungu stafi hætta af frumvarpinu verði það að lögum.

Eiríkur Rögnvaldsson var í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. „Ég er alveg á því að það skipti máli að það skipti máli að viðhalda þessum íslenska nafnaforða og föður- og móðurnafnakerfinu en hins vegar þá er ekki hægt að viðhalda hefðum með lögum. Ef það þarf lög til að viðhalda hefð, þá er hún eitthvað annað en hefð. Eins og þetta er núna þá er ákveðinn hópur fólks sem má bera ættarnöfn og aðrir ekki. Það er augljós mismunum sem stenst klárlega ekki stjórnarskrá, mannréttindasáttmála og annað,“ segir Eiríkur.

Þorsteinn Víglundsson mælti fyrir frumvarpinu í janúar.