Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Mismunandi fylgi eftir flokkum

26.05.2012 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ragnar Grímsson virðist helst sækja fylgi sitt til kjósenda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks meðan kjósendur Samfylkingar og Vinstri Grænna styðja helst Þóru Arnórsdóttur. Flokkspólitískar skoðanir hafa minni áhrif á afstöðu til annarra frambjóðenda.

Capacent Gallup sendi í gær frá sér nýja skoðanakönnun um fylgi forsetaframbjóðenda.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur samkvæmt henni náð forskoti á Þóru Arnórsdóttur - fylgi við Ólaf mælist nú rúm 45% meðan tæp 37% kjósenda segjast myndu kjósa Þóru.

Ari Trausti Guðmundsson mælist síðan með ríflega 9% - aðrir minna. Tvær aðrar kannanir voru birtar í gær sem sýna örlítið aðrar tölur. Grétar Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri hefur farið yfir þær, sem og fleiri kannanir um fylgi forsetaframbjóðenda.

„Ég hef verið að skoða þetta, það eru tvær kannanir í apríl, tvær í fyrri hluta maí og svo fjórar eftir miðjan maí, og reynt að sjá línur út úr því og taka meðaltal af útkomu frambjóðenda þar. Og ef við skoðum Þóru og Ólaf, sem eru náttúrulega með langmest fylgi, þá hafa þau haft samkvæmt þessu klárlega sætaskipti frá því fyrri part maí og fram til seinnipart maí. Þá var Þóra með forskot, 45% á móti 39 fyrri hluta mánaðar en Ólafur er kominn núna í meðaltali í 44% gegn 40% fylgi hjá Þóru.“

Í könnun Capacent kemur fram að mikill munur er á fylgi Ólafs og Þóru eftir stjórnmálaskoðunum kjósenda. Sjötíu og sjö prósent Framsóknarmanna segjast myndu kjósa Ólaf Ragnar, og 67 prósent Sjálfstæðismanna.

Þóra sækir helst fylgi sitt til vinstrimanna - 85% þeirra sem styðja Samfylkinguna segjast myndu kjósa hana - og 65% Vinstri grænna. Fylgi við aðra frambjóðendur sveiflast mun minna eftir stjórnmálaskoðunum kjósenda.

Grétar segir Ólaf Ragnar hafa lagt línurnar í upphafi kosningabaráttunnar í viðtali í þættinum Sprengisandi

„Þar sem að hann að mínu mati reyndi að beina kosningabaráttunni að beina kosningunni inn á pólitíska braut, og ekki síst þá á svið utanríkismála. Það virðist vera að takast hjá honum. Og þar tók hann af allan vafa um að hann væri andstæðingur aðildar að Evrópusambandinu og honum virðist vera að takast að snúa þessum forsetakosningum upp í einhverskonar Evrópusambandskosningu.“