Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Mismunandi ástand í frárennslismálum

Mynd með færslu
 Mynd:
Þau sveitarfélög sem standa sig best í fráveitumálum þurfa flest samt sem áður að gera enn betur. Mikið hefur verið lagt í fráveitu í Reykjavík þar sem lagnakerfið er litlu styttra en hringvegurinn og þar kostar viðhaldið sitt.

Fréttastofan hefur undanfarið sagt frá því að skólpi er mjög víða veitt óhreinsuðu í ár og sjó. Lítum nú til þess sem vel er gert. Í tíu heilbrigðiseftirlitsumdæmum landsins er ástandið í þéttbýlisstöðum mjög mismunandi.

Á Vesturlandi er uppbygging fráveitu lengst komin á Akranesi. Þar er byggingu hreinsistöðvar lokið en hún hefur ekki verið tekin í notkun. Eins á eftir að leiða fráveitulögn út fyrir stórstraumsfjöru. 

Á Vestfjörðum er staðan skást á Ísafirði og í Súðavík. Á Ísafirði hefur ein skólplögn verið leidd 70 metra út í sjó en aðrar lagnir liggja í fjörunni. Í Súðavík er hluti skólps leiddur út fyrir stórstraumsfjöru.

Á Norðurlandi vestra er Blönduós fremstur í flokki. Allt skólp austan Blöndu er hreinsað en eftir er að tengja byggð vestan árinnar við hreinsistöðina.

Dalvíkurbær stendur best á Norðurlandi eystra. Skólpið er ekki hreinsað, en því veitt langt út í sjó.

Á Austurlandi er ástandið best á Egilsstöðum. 3/4 hlutar skólps eru hreinsaðir og restin fer í rotþró sem þó vantar siturlögn.

Hveragerði hefur gengið best frá sínum málum á Suðurlandi. Þar fer skólp um hreinsistöð áður en því er veitt í Varmá.

Á Suðurnesjum er hreinsistöð í Reykjanesbæ þar sem helmingur skólpsins fer í gegn áður en það er leitt út fyrir stórstraumsfjöru. 

Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur og Mosfellsbær hafa fráveitumálin almennt í lagi og Seltjarnarnesbær lýkur við sína fráveitu um áramót. Í Reykjavík er skólpið hreinsað og leitt fimm kílómetra út í sjó. Tvær stórar hreinsistöðvar, í Ánanaustum og í Klettagörðum, sinna borginni og nágrannasveitarfélögunum.¤

„Á þessari stundu fara 1150 lítrar á sekúndu í gegnum hreinsistöðina í Klettagörðum, sem er í hærra lagi. En álagið á stöðina er í samræmi við vatnsnotkun fólks á heimilum", segir Eiríkur Hjálmarson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur. 

Notkunin er mest milli klukkan hálfsjö og níu á morgnana og svo frá fjögur á daginn fram yfir kvöldmat.

„Fráveitukerfið í borginni er gríðarlega stórt. Lagnirnar eru 1.200 kílómetrar, það er að segja, þær ná næstum því hringinn í kringum landið"

Og þessu þarf að viðhalda.

„Nú síðast í fyrra fóru nokkrir tugir milljóna í að endurnýja stálbolta sem halda sökkunum á stálpípunum sem liggja héðan og út í sjó", segir Eiríkur.