Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mismunað vegna aldurs

05.10.2016 - 18:30
Fötluðum manni sem berst við taugasjúkdóm hefur verið synjað um liðveislu og ferðaþjónustu fyrir fatlaða á þeim forsendum að hann sé of gamall.

Leonhard Haraldsson, tannlæknir hefur verið með taugalömunarsjúkdóm frá barnsaldri sem fór að láta á sér kræla þegar hann var um fertugt. Hann varð að hætta að vinna um fimmtugt og var þá metinn 75% öryrki. Hann og kona hans hafa leitað eftir aðstoð hjá borgaryfirvöldum.  

„Við byrjuðum á að leita til þjónustunnar um ferðaþjónustu fatlaðra og fengum bara strax nei."

Amalía hefur því sjálf séð um að flytja mann sinn „og það gekk þangað til minn sjúkraþálfari sagði þú mátt ekki gera þetta lengur því þú ert að missa heilsuna  af þessu."

Þau sóttu líka um liðveislu fyrir fatlaða, sömu þjónustu og Friðgeir Jóhannesson, sótti um - sem rætt var við í fréttum í gær. Leonhard sótti um hana í mars eftir að hann greindist með krabbamein og þurfti líka að fara í endurhæfingu út af því. Og eins og Friðgeir þá fékk hann synjun. 

„Það var bara af því að hann var orðinn 67 og liðveisla er ekki í lögum um eldri borgara eða aldraðra, bara í lögum um fatlaða og það var tekið fram í bréfinu að hann flokkaðist núna sem aldraður en ekki sem fatlaður."

Leonhard var líka neitað um ferðaþjónustu fatlaðra á sömu forsendum. Þegar bíll þeirra bilaði stóð þeim til boða að nota ferðaþjónustu aldraðra, „í þrjá mánuði á því gjaldi sem aldraðir borga, það er sem sagt 1200 krónur fyrir ferðina.  Og þetta hefði kostað okkur 40 þúsund krónur á mánuði og við bara hreinlega réðum ekki við þetta."

Amalía ekur Leonhard ennþá í sjúkraþjálfunina. "Ég get ekki lyft stólnum upp í skottið á bílnum. Við tókum það til bragðs, núna nýlega, að fá börnin okkar,  við eigum 4 börn,  til þess að skiptast á með að koma upp í bata þegar hann er búinn þar og  lyfta stólnum upp í skottið og svo keyri ég heim og mér eru þeir vegir færir að ég get komið honum heim."

Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur, segir að verið sé að skoða þessi mál og að reglunum verði breytt. 

 

 

Mynd: RÚV / RÚV
Ilmur Kristjánsdóttir var spurð út í málin í beinni útsendingu í fréttum Sjónvarps í kvöld.