Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mismikil ánægja með sumarveðrið

06.11.2018 - 15:42
Mynd með færslu
 Mynd: MMR
Mjög misjöfn ánægja var meðal fólks með veðrið á Íslandi í sumar, samkvæmt könnun MMR. Áttatíu og tvö prósent svarenda á Norðaustur- og Austurlandi voru ánægð með sumarveðrið en aðeins 14 prósent Sunnlendinga.

Það er sjálfsagt flestum enn í fersku minni hve veðurgæðunum var misskipt á landinu í sumar. Enda skín það í gegn í þessarri könnun MMR þar sem spurt var um ánægju eða óánægju fólks með veðurfarið.

Þegar ánægja með sumarveðrið er skoðuð eftir landshlutum kemur í ljós að hún var mest á Norðaustur- og Austurlandi. Þar sögðust 82% frekar eða mjög ánægð. Næst á eftir koma íbúar Norðvestur- og Vesturlands en þar voru 29% ánægð eða mjög ánægð.

Íbúar Reykjavíkur og nágrennis voru ekki sáttir við sumarveðrið eða aðeins 22%. Minnst var ánægjan meðal íbúa Suðurlands þar sem aðeins 14% voru ánægð með veðrið.

Þegar á heildina er litið sögðust aðeins 31% landsmanna ánægð með veðrið á Íslandi í sumar. Þetta er mikil breyting frá sumrinu áður þegar 80% landsmanna sögðust ánægð með veðrið.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV