Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mislingatilfellum fjölgar hratt á heimsvísu

29.08.2019 - 06:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjögur Evrópuríki eru fallin af lista Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, yfir ríki sem hafa útrýmt mislingum. Mislingatilfelli tvöfölduðust á milli ára í 48 Evrópuríkjum. 

Samkvæmt WHO greindust nærri 90 þúsund mislingatilfelli í Evrópu á fyrri helmingi þessa árs. Það er ríflega tvöfalt meira en á sama tíma í fyrra, og þegar orðið meira en allt árið 2018, þegar rúmlega 84 þúsund tilfelli voru greind. Samkvæmt gögnum síðan í fyrra er ekki hægt að segja lengur að mislingum hafi verið útrýmt í Bretlandi, Grikklandi, Tékklandi og Albaníu.

Mislingar eru bráðsmitandi, en hægt er að koma í veg fyrir smit með bólusetningu. Gunter Pfaff, yfirmaður Evrópunefndar WHO um útrýmingu mislinga og rauðra hunda, segir mikið áhyggjuefni að sjá mislingasmit í örum vexti. Ef ekki tekst að koma aftur á og viðhalda háu ónæmishlutfalli eigi bæði börn og fullorðnir eftir að þjást að óþörfu, þar af eiga sumir eftir að láta lífið, segir Pfaff.

Hvað heiminn allan varðar greindust nærri þrefalt fleiri mislingatilfelli fyrstu sjö mánuði ársins í ár miðað við sama tíma í fyrra, nærir 365 þúsund í ár miðað við rúmlega 129 þúsund í fyrra. Flest tilfellanna voru í Austur-Kongó, Madagaskar og Úkraínu. WHO segir þetta mikið áhyggjuefni, því talið er að níu af hverjum tíu tilfellum á heimsvísu séu óskráð. Kate O'Brien, stjórnandi ónæmisdeildar WHO, segir líkur á að um mislingar valdi um 6,7 milljón dauðsföllum á ári hverju í heiminum.

Einkenni mislinga eru hiti, hósti og útbrot. Sjúkdómurinn getur verið banvænn. Einnig þekkist að smitaðir geti orðið blindir, og þungaðar konur með mislinga geta misst fóstrið.