Mislingar meðal óbólusettra í Los Angeles

24.01.2017 - 04:56
Mynd með færslu
 Mynd: CDC/Dr. Heinz F. Eichenwald - Wikimedia Commons
Að minnsta kosti 18 tilfelli mislinga hafa greinst í Los Angeles og nágrenni undanfarið. Þetta staðfestu heilbrigðisyfirvöld borgarinnar í gær. Flestir hinna smituðu hafa ekki verið bólusettir.

Yfirvöldu greindu frá því að 16 tilfellanna hafi komið upp í samfélagi rétttrúnaðargyðinga. AFP fréttastofan hefur eftir Jeffrey Gunzenhauser, yfirmanni heilbrigðisyfirvalda í Los Angeles að faraldurinn sé að mestu bundinn við fólk sem ekki hefur verið bólusett og það komi flest úr sama samfélaginu. Sjúkdómurinn smitist þeirra á milli við snertingu. Engin smit hafi borist annars staðar í borginni.

Um hálft ár er síðan ströng lög um bólusetningar tóku gildi í Kaliforníuríki. Eftir faraldur árið 2014 þar sem nærri 150 smituðust í Bandaríkjunum, auk nokkurra í Kanada og Mexíkó, var ráðist í að semja löggjöfina. Þar er þess krafist að öll börn séu bólusett nema læknar gefi ekki leyfi fyrir því af heilsufarsástæðum. Þeir sem yfirvöld vita af núna eru allir yfir 12 ára aldri og falla því ekki undir lögin. 

Mislingar eru veirusýking sem sest að í nefi og hálsi hins smitaða. Einkennin eru útbrot, hvítar bólur inni í kinnum, hiti, hósti og nefrennsli. Sjúkdómurinn getur leitt til fósturmissis þungaðra kvenna og hættu á alvarlegri lungnabólgu og heilabólgu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi