Mislingar: Alvarlegasta staðan í áratugi

05.03.2019 - 22:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjögur mislingasmit hafa komið upp hér á landi á undanförnum dögum og er það alvarlegasta staðan í áratugi. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Landspítalans. Fullorðinn flugfarþegi var smitaður af mislingum og smituðust þrír sem voru með honum um borð; einn fullorðinn og tvö börn, yngri en 18 mánaða og því ekki bólusett.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í kvöldfréttum að þátttaka í bólusetningum hér á landi hafi verið 90 til 95 prósent og því telji hann ólíklegt að mislingafaraldur brjótist út hér á landi. Mislingatilfellum hefur fjölgað mikið í Evrópu á undanförnum misserum. 

Í færslu Landspítalans á Facebook segir að mislingar séu veirusjúkdómur og mjög smitandi. Sjúkdómurinn smitast í andrúmslofti og með snertingu. „Fjögur mislingasmit hafa nú komið upp á Íslandi á undanförnum dögum, sem er alvarlegasta staðan í áratugi. Yfir 90% landsmanna eru ónæmir fyrir smiti vegna bólusetninga eða eldra smits. Bólusetning hefst samkvæmt skema við 18 mánaða aldur og eru því yngri börn sérstaklega viðkvæm fyrir sjúkdómnum. Ekki er ástæða til að láta skoða einkennalaus börn,“ segir í tilkynningu Landspítalans.

Ráðleggja fólki að koma ekki á heilbrigðisstofnanir

Ef grunur er um mislingasmit er fólk hvatt til að hringja í síma 1700. Þar eru hjúkrunarfræðingar á vakt allan sólarhringinn og veita upplýsingar um hvert eigi að leita. Fólk er beðið að fara ekki á heilsugæslustöðvar eða sjúkrahús. Þá ætlar Læknavaktin að bjóða upp á vitjanir í hús til að greina fólk sem mögulega er smitað. 

Mislingar byrja með flensueinkennum

Einkenni mislinga byrja oft með svipuðum einkennum og flensa; hita, nefrennsli, sviða í augum, hósta, bólgnum eitlum og höfuðverk. Á þriðja eða fjórða degi koma oftast fram útbrot um allan líkamann og standa í þrjá til fjóra daga. Börn smita eftir að hiti og einkenni koma fram og meðan útbrotin eru að ganga yfir. Í kjölfar mislinga geta ýmsir sjúkdómar komið eins og niðurgangur, eyrnabólga, kviðverkir og uppköst og í einstaka tilvikum alvarlegir sjúkdómar eins og lungnabólga og heilabólga. Veikindin eru 7 til 21 dag að koma fram og fólk getur smitað aðra um einum sólarhring áður en það veikist og í um tíu daga.

Sóttvarnalæknir ráðleggur óbólusettu fólki og börnum þeirra að fara sem fyrst í bólusetningu til að koma í veg fyrir veikindi. Bólusetning innan 72 klukkustunda frá smiti kemur í mörgum tilfellum í veg fyrir veikindi.

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi