Mislingafaraldur í Minnesota

29.04.2017 - 04:48
Mynd með færslu
 Mynd: CDC/Dr. Heinz F. Eichenwald - Wikimedia Commons
Yfir þrjátíu mislingatilfelli hafa greinst í Minnesotaríki Bandaríkjanna síðustu daga. Tilfellin voru einangruð við eina sýslu, en heilbrigðisyfirvöld staðfestu við CBS fréttastöðina í Minnesota að sjúkdómurinn hafi greinst í fjórum sýslum. Í öllum tilfellum eru sjúklingarnir börn upp að fimm ára aldri. Heilbrigðisyfirvöld brýna fyrir fólki að bólusetja börnin sín.

Samkvæmt Minneapolis Star Tribune hefur bólusetningum farið fækkandi frá árinu 2008 á því svæði sem flest tilfellin greindust. Þá þótti fjöldi foreldra sig greina aukningu á einhverfutilfellum meðal barna. Heilbrigðisyfirvöld bentu þeim á að engar rannsóknir styddu við þá hugmynd að MMR bóluefnið, við mislingum, hettusótt og rauðum hundum, valdi einhverfu. Það dugði ekki til og fer þeim börnum enn fækkandi sem eru bólusett.

Mislingatilfelli hafa einnig greinst í Evrópu að undanförnu. 17 ára stúlka lést í Portúgal á dögunum af völdum mislinga eftir að sjúkdómurinn náði bólfestu í lungum hennar. Auk Portúgals hefur tilfellum fjölgað í Þýskalandi, Ítalíu og Rúmeníu.

Vísindaritið Science greinir frá því að aðeins 72 prósent bandarískra barna hafi verið bólusett árið 2015, en það eru nýjustu mögulegu upplýsingarnar um bólusetningar í landinu. Þar er átt við sjö helstu bóluefnin sem notuð eru gegn 11 sjúkdómum sem geta verið lífshættulegir. Bólusetningum hefur þó fjölgað frá árinu 2011 þegar 69 prósent barna voru bólusett. Í nýjasta tölublaði Science er ýmsum ranghugmyndum um bólusetningar svarað, og sýnt svart á hvítu hversu miklu bólusetningar hafa áorkað við að fækka tilfellum hættulegra sjúkdóma. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi