Misjöfn rjúpnaveiði en fyrsti dagurinn góður

27.10.2017 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Rjúpnaveiðin hófst í dag og þrátt fyrir vonda veðurspá áttu margir góðan dag á fjöllum og voru ánægðir með veiðina. Rjúpnaskytta á Akureyri segir að fáir veiðidagar séu í boði og þá verði að nýta allan þann tíma sem gefst þrátt fyrir leiðindaveður.

Rjúpnaveiðin er 12 dagar sem skiptast á fjórar helgar. Það má veiða í þrjá daga núna um helgina og síðan þrjár helgar í nóvember. Veðurspáin fyrir þennan fyrsta veiðidag var ekki góð og margar rjúpnaskyttur ýmist hættu við að fara til veiða eða seinkuðu för fram eftir degi. Og veiðin var misjöfn, sumir fengu enga rjúpu á meðan aðrir voru vel sáttir við daginn.

Verður að nýta þá daga sem bjóðast

Afraksturinn dagsins hjá Arnari Oddssyni, rjúpnaskyttu á Akureyri, var tvær rjúpur eftir fjögurra og hálfs tíma göngu á Öxnadalsheiði. Hann tók daginn snemma og var farinn að heiman löngu fyrir birtingu. „Það gekk ekkert sérstaklega í dag út af veðri, en þetta var ágætt. Ég sá nokkra fugla og náði tveimur, þannig að maður er hóflegur í þessu í dag.“ Og Arnar segist hafa verið í leiðindaveðri. „En það eru fáir dagar og þegar maður hefur ekki kost á öllum þessum dögum verður að reyna að nýta það sem maður hefur, þetta er bara þannig. Maður verður að taka það sem býðst.“

Er vel kunnugur á þessum slóðum

„Það voru milli 15 og 20 metrar og haglél fram undir hádegi og snérist svo yfir í rigningu,“ segir Arnar.
Þá skiptir væntanlega máli að þekkja staðhætti og kunna vel til verka?
„Já, já, maður kannast nú aðeins við sig á heiðinni og er búinn að fara þarna víða áður.“ 

Rjúpan hátt í fjallinu í hlýindunum

Anton Gestsson og Elvar Örn Jóhannsson voru að gera sig kára til veiða í Hlíðarfjalli um miðjan dag. Þar voru margir á veiðum. „Við kíktum aðeins upp á Vaðlaheiði í morgun, tókum smá hring þar og fengum eina,“ segir Anton.
Það er næstum 10 stiga hiti, er rjúpan ekki erfið í þessarri tíð?
Hún er kannski hærra uppi, en það er auðveldara að sjá hana,“ segir Elvar.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi