Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Misjafnar aðstæður bænda til að slátra snemma

28.11.2016 - 16:46
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Landfræðilegar aðstæður ráða því hvort bændur geti brugðist við tilboði sláturheyfishafa um að slátra snemma og fá þannig hærra verð fyrir afurðirnar. Bændur á snjóþungum svæðum eiga erfitt með að flýta sauðburði og færa lömb fyrr til slátrunar.

Sláturfélag Suðurlands hefur tilkynnt að fyrirtækið hyggist greiða allt að 20% hærra verð fyrir afurðir frá bændum sem skila dilkum til slátrunar fyrir hefðubundinn sláturtíma haustið 2017. Með því að flýta slátrun og útvega nýtt kjöt á markaðinn verði hægt að greiða hærra verð.

Þeir sem sjái sér hag í því slátri snemma

Til að flýta slátrun þurfa bændur að flýta fengitíma og hefja sauðburð fyrr. Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir dæmi um að þetta hafi verið gert og bændur sem hafi aðstöðu til, og sjái sér hag í því að láta ærnar bera snemma, geri það.

Erfitt fyrir bændur á snjóþungum svæðum

En aðstæður séu misjafnar hvað þetta varðar. „Þar sem er vorgott og snjólétt þá er tiltölulega einfalt að bregðast við þessu,“ segir Þórarinn. „En sumstaðar er náttúrulega þannig að það er eiginlega ekki gerlegt að standa í þessu. Vegna þess að vorið kemur seinna og kannski er snjór yfir öllu líka. Þannig að menn eru þá ekki heldur neitt spenntir fyrir því að hefja sauðburð neitt snemma.“ Því eigi margir bændur þess ekki kost að auka verðmætin með því að slátra fyrr. „En sumsstaðar á landinu, sérstaklega á Suðurlandi, þá er þetta mjög heppilegt,“ segir hann. 

Ekkert sjálfsagt að allir fari í þetta

En Þórarinn segir ekkert sjálfsagt að allir bændur beini sínum búskap í þennan farveg. „Það er miklu frekar að menn fari í þetta, sem að eiga gott með það. Menn verða bara að sníða sér stakk eftir vexti hvað það varðar.“
 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV