Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Misjafn sauður í mörgu fé“

02.10.2018 - 22:47
Mynd: Skjáskot / RÚV
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að eitt brot sé einu broti of mikið þegar kemur að því að atvinnurekendur virði ekki réttindi starfsmanna sinna. Hann segist ekki geta fullyrt um hversu útbreidd brot eins og þau sem lýst var í Kveik séu en telur að þau séu engan veginn lýsandi fyrir íslenskan vinnumarkað í heild sinni.

„Það sem ég dreg út úr þessu er að það er misjafn sauður í mörgu fé. Þetta er engan veginn lýsandi fyrir íslenskan atvinnumarkað í heild sinni. Þetta eru dæmi sem eru ljót og við fordæmum af fullum krafti. Hins vegar held ég að sé mikilvægt að við lítum öll í eigin barm í þjóðfélaginu, sama hvort það eru stjórnvöld, atvinnurekendur eða launþegahreyfingin. Við þurfum að gera betur til að koma í veg fyrir að brot af þessu tagi fái að viðgangast,“ sagði Halldór Benjamín í Tíufréttum í sjónvarpi í kvöld.

Halldór Grönvold sagði í seinni fréttum RÚV í sjónvarpi að atvinnurekendur væru að fara illa með og brjóta á þúsundum einstaklinga. Aðspurður um þetta svaraði Halldór Benjamín. „Eitt brot í mínum huga er einu broti of mikið. Ég get ekki fullyrt um hversu mörg brot þetta eru. Aðalatriðið er að þetta er samfélagslegt verkefni sem við verðum að ná utan um.“ Hann segir að mikið hafi verið gert á síðustu árum, svo sem vegna keðjuábyrgðar og aðgerða gegn kennitöluflakki. „En betur má ef duga skal eins og dæmin sýna.“

Halldór Benjamín segir að brot sem þessi skekki samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem hafi allt sitt á hreinu, og það séu langflest fyrirtæki á markaði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV