Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Misbýður fullkomlega ummæli um fatlað fólk

08.12.2018 - 20:32
Mynd:  / 
Fræðafólki í fötlunarfræðum er misboðið vegna ummæla þingmanna um fólk með fötlun. Þau ætla að sniðganga velferðarnefnd Alþingis á meðan þingmaður Miðflokksins á sæti þar. Rannveig Traustadóttir prófessor og forstöðumaður segir að þau geti ekki unnið með þeim sem tali á þennan hátt um fatlað fólk.

Þingstörf ganga ekki klakklaust fyrir sig þessa dagana. Kvöldið þar sem sex þingmenn sátu að sumbli á barnum Klaustri hefur dregið verulegan dilk á eftir sér. Í gær gengu nokkrir þingmenn út úr sal Alþingis þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins tók til máls. Þau segja það ekki hafa verið samantekin ráð heldur viðbrögð hvers og eins á þeirri stundu. 

„Ég hafði sannfæringu fyrir því hvað ég myndi gera ef þetta kæmi til, þetta kom nokkuð á óvart á þessum tímapunkti, ég hélt við fengjum frið og næði lengur en það kom að þessu þarna í gær og ég undi því ekki eins og sakir standa,“ segir Guðjón S. Brjánsson þingmaður Samfylkingarinnar og einn þeirra sem gekk út. 

Í dag sendi fræðafólk við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í fötlunarfræðum forseta Alþingis bréf. Þar segir að þau ætli ekki að vinna með velferðarnefnd á meðan Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokks, situr þar. Ekki náðist í Önnu Kolbrúnu í dag. Síðast veitti hún fréttastofu viðtal 29. nóvember. Þá sagðist hún það ekki fara saman að sitja í velferðarnefnd og gera grín að fötluðum. Ennfremur sagðist hún ekki eiga sér neinar málsbætur og hún tæki fulla ábyrgð á sínum orðum. 

Í áfalli vegna orðræðu þingmanna

Rannveig Traustadóttir, prófessor og forstöðumaður Rannsóknarseturs í fötlunarfræði við HÍ, segir starfsfólk sitt í áfalli vegna orðfæris þingmannana sem funduðu á Klaustri umrætt kvöld. „Ef að stjórnvöld hér á landi eru einlæg í því að vilja bæta mannréttindi fatlaðs fólks þá er núna tækifærið til að sýna það að þessi klausturumræða er undantekning ekki regla,“ segir Rannveig.  

Hún segir ekki hægt að gera greinamun á þeim sem láta orðin falla og þeim sem láta ótalið hvernig hinir tala. „Við erum bara í áfalli og okkur misbýður fullkomlega hvernig talað var um fatlað fólk og aðra jaðarsetta hópa. Sérstaklega fatlaðar konur.“ Síðustu ár hafi verið unnið ötullega að því á alþjóðavettvangi að efla mannréttindi fatlaðs fólks, meðal annars með innleiðingu nýs sáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

„Og þetta hefur verið unnið í einstaklega góðu samráði með þessari velferðarnefnd. Og það auðvitað gerir það að verkum að þegar að 10% þingmanna, meðal annars fulltrúi í velferðarnefnd virðist bara alls ekki hafa náð þeim markmiðum, eða náð að tileinka sér þetta starf, að þá er okkur svo misboðið að við bara treystum okkur ekki til að vinna með fólki sem að talar á þennan hátt.“