Minntist ekki á kæruna en lofaði efnahagsástandið

epa08193793 US President Donald Trump (C) delivers his State of the Union address to a joint session of the US Congress in the House chamber of the US Capitol in Washington, DC, USA, 04 February 2020.  EPA-EFE/LEAH MILLIS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Bandaríkin eru „sterkari en nokkru sinni" og „fjendur Bandaríkjanna eru á hröðum flótta, gæfa Bandaríkjanna vex og framtíð Bandaríkjanna er skínandi björt," sagði Donald Trump, Bandaríkjaforseti í stefnuræðu sinni, sem hann flutti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í nótt og sögð er marka upphaf formlegrar kosningabaráttu hans. Forsetinn minntist ekki einu orði á ákæru fulltrúadeildarinnar á hendur honum, sem að öllum líkindum verður felld í atkvæðagreiðslu í öldungadeildinni á morgun.

Þess í stað lagði hann höfuðáherslu á efnahagsmálin lengi framan af ræðu sinni og varð tíðrætt um þann árangur sem hann og ríkisstjórn hans hefðu náð á því sviði. Hann hét því líka að „láta sósíalismann aldrei eyðileggja bandarísku heilbrigðisþjónustuna" og lofaði Juan Guaidó, sjálfskipuðum forseta Venesúela, að hann myndi leysa land hans og þjóð úr „heljargreipum harðstjórans Maduros“

Hróp gerð að Trump er hann ræddi byssulöggjöfina

Gerð voru hróp að forsetanum utan úr sal þegar hann hét því að verja byssulöggjöf landsins og var hrópandinn snarlega leiddur úr salnum. Í ljós kom að þar var á ferðinni  faðir eins fjórtán nemenda í menntaskólanum í Parkland í Flórída, sem myrtir voru ásamt þremur kennurum í febrúar 2018.

Allnokkrir þingmenn Demókrata gengu út undir ræðu forsetans og minnst tíu úr þeirra hópi sniðgengu stefnuræðuna alveg.

Segja viðburðinn líkari kosningafundi en stefnuræðu

Margir þingmenn Demókrata gagnrýndu Trump fyrir að misnota þennan virðulega vettvang til að sviðsetja kosningafund fremur en halda hefðbundna stefnuræðu. Sem dæmi um þetta má nefna að áður en forsetinn tók til máls kyrjuðu þingmenn Repúplikana kosningaslagorðið „Four more years" eða „Fjögur ár í viðbót," sem ekki hefur tíðkast við þetta tækifæri áður.

Þá talaði Trump fjálglega um fórnir bandarískra hermanna á erlendri grundu og beindi orðum sínum til konu sem var í hópi boðsgesta ásamt börnum sínum; eiginkonu hermanns sem búinn var að vera fjarri fjölskyldu sinni í sjö mánuði.  Eftir nokkurn formála uppljóstraði forsetinn svo að eiginmaðurinn væri líka í salnum og leiddi þau saman, konuna, karlinn og börnin, tárvot af gleði fyrir framan myndavélarnar. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi