Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Minnst 15 létust á Dóminíku vegna Maríu

22.09.2017 - 03:41
epa06216803 A view of the facade of a building that was damaged by strong winds and heavy rain during the passing of Hurricane Maria, in San Juan, Puerto Rico, 20 September 2017. The powerful storm left severe damage to the infrastructure and houses of
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Minnst 15 létu lífið þegar fellibylurinn María böðlaðist á karíbahafsríkinu Dóminíku á mánudag. 20 til viðbótar er enn saknað. Roosevelt Skerrit, forsætisráðherra Dóminiku, greindi frá þessu í sjónvarpsviðtali og segir það ganga kraftaverki næst að fleiri skuli ekki hafa farist í hamförunum. María var fimmta stigs fellibylur þegar hún skall á Dóminiku, þar sem 72.000 manns búa. Skerrit, sem flaug yfir eyjuna í gær til að skoða afleiðingarnar, sagði eyðilegginguna skelfilega.

Hundruð íbúðarhúsa eru rústir einar, skólar eru ónýtir og aðalsjúkrahús landsins er enn án rafmagns því flóð koma í veg fyrir að hægt sé að ræsa vararafstöðina. Báðir helstu flugvellir landsins skemmdust mikið í veðurofsanum og eru ennþá lokaðir. Þá eru miklar truflanir á síma- og tölvusamskiptum vegna skemmda á fjarskiptaneti landsins.

Rafmagnslaust, flóð og gríðarleg eyðilegging á Púertó Ríkó

Á Púertó Ríkó er vitað um eitt dauðsfall af völdum Maríu. Þar er enn mikil úrkoma, vatnavextir með mesta móti og eiga enn eftir að aukast. Spáð er allt að 750 millimetra úrkomu fram til laugardags og er fólk hvatt til að koma sér í öruggt skjól, þar sem ekki er hætta á skyndiflóðum. Rafmagn fór af um allt land á Púertó Ríkó þegar María fór þar um, og langflestir eru enn án rafmagns.

Ricardo Rosselini, ríkisstjóri á Púertó Ríkó, segir Maríu hafa verið mesta skaðræðisbyl sem dunið hefur á eyjunni í heila öld. Hann segir rafmagnsdreifikerfið hafa skemmst svo mikið í fárviðrinu að það geti tekið marga mánuði að koma því samt lag.