Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Minningarnar búa um sig líkt og hrúðurkarlar

Mynd með færslu
 Mynd:

Minningarnar búa um sig líkt og hrúðurkarlar

19.12.2018 - 11:27

Höfundar

Álfrún Gunnlaugsdóttir rithöfundur varpar sérstæðu ljósi á stóra atburði í skáldsögu sinni Hringsól. Bókin kom út árið 1987 og með henni tryggði Álfrún sér sess meðal okkar fremstu rithöfunda. Hægt verður að njóta hennar í hljóðbókarútgáfu í boði Rásar 1 og menningarvefs RÚV um hátíðarnar.

Rás 1 og menningarvefur RÚV færa landsmönnum íslensk skáldverk í hljóðbókarútgáfu að gjöf á aðfangadegi jóla í ár. Hér eftir fylgir umfjöllun um eina þeirra fimm bóka sem hægt verður að njóta í hlaðvarpi og spilara RÚV um hátíðarnar, skáldsögu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, Hringsól. Hinar bækurnar sem boðið verður upp á eru Mánasteinn eftir Sjón, Sandárbókin eftir Gyrði Elíasson, Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur og Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur.

Hringsól sætti nokkrum tíðindum þegar hún kom út 1987. Þetta var þriðja skáldsaga Álfrúnar og voru gagnrýnendur flestir sammála um að hér hefði Álfrún náð fullum tökum á sérstökum frásagnarstíl, þar sem líkt er eftir duttlungum og brigðulleika minnisins.

Mynd:  / 

Í Hringsóli lítur öldruð kona, Elínborg, Ella eða Bogga, yfir farinn veg og þræðir saman minningarbrot. Úr verður frásögn sem í fyrstu er ekki auðvelt að henda reiður á. Í henni er hlaupið fram og aftur í tíma og rúmi og framvindan stýrist af minni og tilfinningalífi sögukonu sem á stundum streitist á móti í upprifjuninni, svo sárar eru minningarnar.

„Maður þurrkar ekki burt minningar með klút, búa um sig í manni líkt og hrúðurkarlar.“
(Bls. 13) 

Upprifjun Boggu hefst er hún orðin ekkja sem býr ein í stóru húsi. Lesandinn er leiddur um hlykkjótta leið, þar sem greint er frá ferðalagi hennar frá litlu sjávarþorpi á Íslandi, til Reykjavíkur og svo meginlands Evrópu. Auk sinna eigin minninga segir hún frá minningum eiginmanns síns Daníels sem litast af ofbeldi og annarlegum fýsnum.

Álfrún lýsti frásagnarhættinum í viðtali við Matthías Viðar Sæmundsson í menningarþættinum Gleraugað árið 1987. „Mér fannst þetta form hæfa efninu, vitundarlífi. Það býður líka upp á vissa ljóðræna möguleika, einföldun. Mig langaði að skapa heim, einmitt með því að nota spuna. Leyfa ímyndunaraflinu leika lausum hala og sjá hvað gerðist.“

„Bogga kunni þetta utan að, þó breyttist sagan alltaf. Ný atriði bættust við og kollvörpuðu fyrri skýringum. Nánast ómögulegt að gera sér grein fyrir hvað var satt, hvað logið. Eða var þetta allt saman ímyndun?“
(Bls. 135)

Álfrún segir í Hringsóli frá mikilli persónulegri þjáningu og hvernig ástleysi og harka skapa jarðveg fyrir illsku. Spurð að því hvort sársaukinn sé stór þáttur í lífi okkar í sama viðtali og vísað er til hér að ofan svaraði hún því að erfitt væri að alhæfa um slíka hluti, „en mig grunar að sársaukinn skilji eftir dýpri spor en til dæmis gleðin eða hamingjan. Þess vegna er sársaukinn mjög stór þáttur í lífi okkar.“ Svava Jakobsdóttir rithöfundur komst þannig að orði í ritdómi sínum um bókina að þar hafi Álfrún kortlagt illskuna.

Mynd með færslu
 Mynd:

Illskan í hinu stóra samhengi kemur einnig við sögu í nær öllum sögum Álfrúnar – það er illskan sem brýst fram í harðstjórn og stríðsátökum. Í Hringsóli nær hún með samspili einkalífs og stjórnmálaátaka, þar sem nasismi og herseta Bandamanna setja mark sitt á sögupersónur, að magna upp einstaka tíðarlýsingu. Með því að fjalla um hlutskipti ósköp venjulegrar íslenskrar konu er í bókinni varpað sérstöku ljósi á stóra atburði. 

Það sama má segja um næstu bók í jólapakka Rásar 1 sem verður til umfjöllunar á síðum menningarvefs RÚV eftir því sem nær dregur jólum, Mánasteinn eftir Sjón. Bókin gerist um svipað leyti og frásögn Boggu hefst. Hún segir frá samkynhneigðum dreng í Reykjavík sem er utanveltu í samfélaginu og einangrar sjálfan sig í heimi kvikmyndanna. Á sama tíma geisa náttúruhamfarir og drepsótt á Íslandi, heimsstyrjöldin fyrri er í andaslitrunum og fullveldisdraumar eyþjóðar verða að veruleika.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Engin þjáning er ómerkileg

Bókmenntir

Sköpunarsaga rithöfundar

Bókmenntir

Fórnargjald listarinnar

Bókmenntir

Ýktur heimur sem hentar gömlum súrrealista