Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Minnihluti Airbnb-íbúða telst heimagisting

26.05.2016 - 19:21
Mynd: Tom Slee / RÚV
Ráðgert er að frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, verði að lögum innan skamms þrátt fyrir mótbárur forsvarsmanna Airbnb sem telja sum ákvæði þess er lúta að heimagistingu óþarflega íþyngjandi og til þess fallin að skaða ferðaþjónustuna. Síðastliðið ár dvöldu um 211 þúsund ferðamenn í Airbnb-íbúðum hérlendis. Skiptar skoðanir eru um hvort frumvarpið verði til þess að toga útleiguna, sem að mestu hefur verið stunduð í leyfisleysi, upp á yfirborðið.

Regluverkið einfaldað og umgjörðin skilgreind

Einungis um fjórðungur íbúða sem leigður er út á vefsíðunni Airbnb flokkast sem heimagisting samkvæmt frumvarpinu. Flókið leyfisveitingaferli í kringum þennan flokk verður einfaldað og heimagisting á vegum einstaklinga verður einungis skráningarskyld, að því gefnu að útleigan takmarkist við tvær eignir sem samtals má leigja út í 90 daga á ári eða þar til ágóðinn af starfseminni nær þremur milljónum króna. Fasteignagjöld miðast við íbúðarhúsnæði, ekki atvinnuhúsnæði eins og áður. Þeir sem standa að útleigunni þurfa þó að gera ýmislegt:

  • Skrá húsnæðið hjá sýslumanni. Skráninguna þarf að endurnýja árlega.
  • Tryggja að brunavarnir séu fullnægjandi. 
  • Fá starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti. 
  • Skila yfirliti um útleigu og tekjur af henni til sýslumanns á hverju ári. 

Markmiðið frumvarpsins er að auðvelda húsnæðiseigendum sem vilja hafa það sem aukabúgrein að leigja ferðamönnum íbúð eða herbergi að uppfylla lög og reglur og draga úr umfangi ólöglegrar starfsemi. En tekst það? Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokks og nefndarmaður í atvinnuveganefnd þingsins, og Ragnhildur Sigurðardóttir, talsmaður Samtaka um skammtímaleigu á heimilum, ræddu þetta og fleira þessu tengt í Spegli dagsins. 

Hlýða má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Hér má sjá nýlegt kort fyrirtækisins Expectus yfir Airbnb-markaðinn í Reykjavík.

Telur hugsanlegt að löggjöfin ýti undir skattsvik

Þorsteinn telur að frumvarpið, sem tekið hefur nokkrum breytingum í meðförum atvinnuveganefndar síðustu daga, verði samþykkt í núverandi mynd og er vongóður um að það skili árangri. Ragnhildur tekur aftur á móti undir með forsvarsmönnum Airbnb, hún telur takmarkanirnar of íþyngjandi og hugsanlegt að löggjöfin komi til með að ýta undir skattsvik. Þá segir Ragnhildur ekki víst að hægt yrði að koma öllum þeim ferðamönnum sem velja að gista í Airbnb-húsnæði fyrir á hótelum Reykjavíkur, verði breytingin að veruleika, þrátt fyrir mikla uppbyggingu. 

Mynd með færslu
 Mynd: AirBnb - Skjáskot

 

Segir þá sem velja Airbnb hafa mikla sérstöðu

„Gestir Airbnb hafa einnig sín sérkenni líkt og gestgjafar okkar. Þeir eru ekki dæmigerðir gestir og margir þeirra hefðu hvorki ferðast né dvalið eins lengi og raun ber vitni ef ekki fyrir tilstilli Airbnb. Að jafnaði er mjög hátt hlutfall gesta sem segjast hafa verið að leita eftir upplifun sem jafnast á við að „búa eins og heimamaður“. Undanfarið ár hafa 211.000 gestir heimsótt Ísland og gist hjá gestgjafa á Airbnb. Jákvæðu áhrifin af gestunum hjá okkur eru meiri en af dæmigerðum ferðamanni. Þeir gista lengur en dæmigerðir ferðamenn. Þeir eyða meiru í ferðinni sinni heldur en dæmigerðir ferðamenn. Allmiklu meira af því fé er eytt í næsta nágrenni við gististaðinn þeirra. Heildarmyndin er afar hagstæð - fyrir gesti, gestgjafa og hagkerfið á hverjum stað.“

Skrifar Sofia Gkiousou, stjórnandi á sviði opinberra stefnumála hjá Airbnb, í umsögn sinni um frumvarpið. Fjöldinn sem hún heldur því fram að hafi gist í Airbnb-íbúðum síðastliðið ár jafnast á við 16% allra þeirra ferðamanna sem komu til Íslands í fyrra.