Minni makríll veikir samningsstöðu Íslands

03.09.2018 - 11:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Við höfum sett einhliða kvóta á makríl og byggt okkar röksemdarfærslu á því að mikið sé um makríl á Íslandsmiðum. Fréttir um að forsendurnar séu að breytast eru óheppilegar fyrir Ísland og veikir samningsstöðu okkar verulega.“ Þetta segir Daði Már Kristófersson, umhverfis- og auðlindahagfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, um samningsstöðu Íslands í makrílviðræðunum í haust.

Í niðurstöðum úr sameiginlegum uppsjávarleiðangri Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana kom í ljós að mun minna mældist af makríl á hafsvæðinu við Ísland en verið hefur undanfarin ár. Meginmarkmið leiðangursins var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi. Niðurstöðurnar eru svo notaðar við mat á stofnstærð makríls en ICES birtir ráðgjöf um aflamark síldar, makríls og kolmunna 28. september. Vísitala lífsmassa makríls var metinn 6,2 milljónir tonna sem er 40% lækkun frá árinu 2017 en mestur þéttleiki mældist í Noregshafi. Þéttleikinn við Íslandsstrendur er enn mestur vestan megin við landið.

Löndin hafa engan sérstakan áhuga á að við veiðum makríl

Ísland hefur ekki haft aðild að samningi um veiðar á makríl til þessa. ESB, Noregur og Færeyjar gerðu samning um makrílveiðar árið 2015 án aðkomu Íslendinga og gefur Ísland því út einhliða kvóta á makríl. Samkomulagið um makrílveiðarnar frá 2015 rennur út í árslok og stendur til að hefja viðræður um makrílveiðar í október næstkomandi.

Daði segir að samningsstaða Íslands sé nú önnur en fyrir mælingarnar. „Þessi veiði hefur verið mikil búbót fyrir íslenskan sjávarútveg. Það eru því ekki góðar fréttir ef það mælist minna af makríl því það þýðir að sóknarkostnaðurinn mun hækka,“ segir hann. „Ennþá verra er að enn er ósamið um réttindi Íslands. Þessi lönd hafa engan sérstakan áhuga á að við veiðum makríl.“ Líklegt verður því að teljast að löndin framlengi gildandi samkomulag í haust án aðkomu Íslands.

Heppilegra þegar hagsmunir fóru saman með Færeyingum

Þá segir Daði að það hafi verið óheppilegt þegar Færeyingar sömdu og Ísland stóð eitt úti í kuldanum. Færeyingar voru lengi vel í samfloti með Íslendingum í makríldeilunni við Evrópusambandið og Norðmenn en sömdu síðan árið 2015 um makrílinn án aðkomu Íslands. „Staða okkar var sterkari þegar hagsmunir landanna fóru saman,“ segir Daði. Jón Gunnarsson var formaður atvinnuveganefndar þegar Færeyingar sömdu en hann líkti því við rýtingsstungu í bakið.

Frá 2010 til 2016 var mæld­ur mak­ríll inn­an ís­lenskr­ar lög­sögu ein til þrjár milljón­ir tonna. Stærð stofnsins var í hámarki á þessum árum samhliða sjávarhita við Íslandsstrendur. Sjáv­ar­kuldi suður og suðvest­ur af Íslandi kann að skýra það að minna mælist af makríl og að hann flytji sig að Noregsströndum.

Mest lesið á RÚV