Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Minni líkur á hjartasjúkdómum hjá grænkerum

05.09.2019 - 03:13
Mynd með færslu
 Mynd: EPA - DPA
Að sneiða alfarið hjá dýraafurðum minnkar líkurnar á hjartasjúkdómum en eykur líkurnar á heilablóðfalli. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem birt hefur verið í læknatímaritinu British Medical Journal. Í rannsókninni var 48 þúsund manns fylgt eftir í allt að átján ár. Næringarfræðingar sem unnu að rannsókninni segja að sama hvernig mataræði fólks sé, sé best að borða fjölbreytt fæði.

Í rannsókninni var farið yfir gögn úr langtímarannsóknarverkefninu EPIC-Oxford. Helmingur þátttakenda, sem skráðu sig í rannsóknina á milli 1993 og 2001, voru kjötætur, rúmlega sextán þúsund voru grænmetisætur eða grænkerar og þá voru sjö þúsund og fimm hundruð manns sem borðuðu engar afurðir úr dýraríkinu nema fisk og aðrar sjávarafurðir. Þátttakendur voru síðan spurðir spjörunum úr um heilsu og mataræði, fyrst þegar þeir skráðu sig í rannsóknina og síðan árið 2010.

Þeir sem borðuðu engar afurðir úr dýraríkinu nema fisk og aðrar sjávarafurðir voru í 13 prósent minni hættu á að fá hjartasjúkdóma en kjötæturnar og voru grænkerar og grænmetisætur í 22 prósent minni hættu. Þeir sem neyttu engra dýraafurða voru hins vegar 20 prósent líklegri til að fá heilablóðfall. Rannsakendur segja að það kunni að vera vegna ónægrar B12-vítamín inntöku.

Frankie Phillips, doktor í næringafræði, segir við breska ríkisútvarpið BBC að niðurstaða rannsóknarinnar sé þó ekki að það sé óheilbrigt að neyta ekki dýraafurða. Rannsóknin sýni fylgni en ekki endilega orsakir og afleiðingar. Mikilvægast sé að mataræði sé vel skipulagt og fjölbreytt. Þá segir hún að mataræði grænkera og grænmetisæta sé ef til vill allt öðruvísi en þegar rannsóknin fór af stað. Nú sé meiri fjölbreytni í boði fyrir þá sem neyta ekki dýraafurða.