Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Minni heimildir nú til rannsókna efnahagsbrota

Mynd: Jón Þór Víglundsson / RÚV
Embætti héraðssaksóknara hefur minni rannsóknarheimildir en embætti sérstaks saksóknara hafði. En erlendis er Ísland eftir hrunið einkum þekkt fyrir að hafa rannsakað starfsemi bankanna. Nýlega birti dagblaðið Financial Times alþjóðlegt yfirlit yfir dóma í málum banka eftir hrun: alls 47 bankamenn verið dæmdir, þar af 25 á Íslandi. Samkvæmt samantekt Ríkisútvarpsins hafa 40 manns verið sakfelldir í bankamálum en ekki allir þeirra eru bankamenn. 

Landið sem rannsakaði bankana

Erlendis er Ísland þekkt fyrir þetta, að hafa rannsakað bankana eftir hrun. Hugmynd um rannsókn var komin á kreik strax í október 2008 og í desember sama ár var samþykkt frumvarp um embætti sérstaks saksóknara, segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.

„Það kemur eiginlega mjög fljótlega upp hjá ráðherra dómsmála að fara í sértækt átak til þess að vinna í þessu. Við megum heldur ekki gleyma því að það var ekki byrjað mjög stórt. Það var nú bara byrjað með fimm starfsmönnum þannig að kannski fyrsta hugmyndin var, hjá ráðherranum, að ganga úr skugga um hvort um refsiferða háttsemi hefði verið að ræða eða ekki. Svo þegar menn sjá málin koma þá vex þetta frekar hratt með þeim verkefnum sem komu. Þannig að kannski má segja sem svo að menn byrjuðu ekki með það í huga að þetta myndi enda í þetta mörgum málum fyrir dómi.“

„Mýta að löndin hafi ekkert gert“

En það hefur ekki farið jafnmikið fyrir rannsóknum erlendis, samanber yfirlit Financial Times.

„Það hefur verið svolítil mýta, hér á landi sérstaklega, að löndin erlendis hafi ekki gert neitt. Það er í raun ekki alveg rétt. Í fyrsta lagi fer Serious Fraud Ofice af stað með sínar rannsóknir sem í rauninni enduðu nú ekki neitt vel. Írar fóru með Anglo Irish Bank og þar voru kveðnir upp nokkrir dómar. Það voru að minnsta kosti fimm mál í Danmörku sem við vissum af, sem reyndar náðu ekki framgangi fyrir dómi. Við höfum fengið heimsóknir frá Slóveníu og Kýpur. Þar voru settar af stað rannsóknir sem að til dæmis í Slóveníu náðu nú fæstar fyrir dóm. Á Kýpur var þetta vandamál vgna þess að þetta tengdist svo mikið Grikklandi. Þeir voru þarafleiðandi háðir upplýsingagjöf frá Grikkjunum þannig að við fengum upplýsingar og heimsóknir þaðan. Það var mjög víða sem menn fóru af stað en í nokkrum tilvikum þannig að það endaði ekki fyrir dómi. Bretarnir hafa jú farið með mál fyrir dóm. Vaxtamálið er þetta nýjasta, líbór málið og Danirnir og Írarnir. En síðan hefur ekki gerst mikið meira. Það vekur kannski sérstaka athygli að Bandaríkjamenn gerðu ekki neitt með sína banka.“

Þess vegna þessar spurningar erlendis um íslensku rannsóknirnar?

„Það er svolítið erfitt fyrir okkur kannski að svara því þar sem við erum á þeim enda að vera í forsvairri fyrir rannsókn sem þó var ráðist í. En það kann kannski að einhverju leyti að skýrast af því að það var öðruvísi ástand hér á Íslandi en víðast hvar annars staðar. Hér fóru bankarnir hreinlega bara í skiptameðferð. Erlendis var það þannig að það var hlaupið undir bagga og settir fjármunir í að bjarga bönkunum. Og þá kannski liggja hagsmunir ríkisins aðeins meira með því að þeir bankar plumi sig og kannski ekki vænlegt til árangurs að fara á sama tíma í rannsóknir á hendur stjórnendum þeirra. En þetta eru bara vangaveltur.“

Svo þá er ríkið svolítið í sama liði og bankamennirnir? 

„Já, þeir verða eiginlega svolítið að treysta á að þeir hinir sömu rétti skútuna við.“

Iðulega á brattann að sækja

En er þá íslenskt lagaumhverfi frábrugðið því sem tíðkast í nágrannalöndunum? Ólafur kveður svo ekki vera, íslensk löggjöf svipuð því sem tíðkast í Evrópu. 

Það hefur verið allur gangur á hvernig bankamálum hefur vegnað fyrir dómi erlendis, iðulega á brattann að sækja og sýknudómar, eins og var reyndar stundum framan af á Íslandi. En það er þó eitt sem greinir Ísland frá öðrum löndum: það var lagt fé í rannsóknir.

„Það má líka segja sem svo að það sem var frábrugðið var að það voru látnir ákveðnir resúrsar í þetta hér uppi á Íslandi en víðast annars staðar var það nú takmarkað. Þannig að það var verið að setja þessi verkefni á stofnanir sem þegar höfðu alveg nóg fyrir af verkefnum áður en þær fengu þessi verkefni til sín. Þannig að það er líka spurning hversu megnugar þær voru að komast í gegnum þetta.“

Ekki meiri samúð með meintum hvítflippaglæpamönnum

Því er stundum velt upp að það sé tregða í rannsókn hvítflibbaglæpa og þá einnig brotum er varða banka, að saksóknarar og dómarar finni frekar til samkenndar með meintum hvítflibbaglæpum en öðrum.

„Ég er nú ekki alveg sammála þessu. Ég tel að það sé frekar þannig að ef málin eru mjög flókin og erfið viðureignar, stór og umfangsmikil, að þá sé nú kannski hættara við að menn týnist svolítið á leiðinni. Það verður að segjast eins og er að ef dómari sem sé skilur ekki málið eða það næst ekki að leiða kjarna málsins fram að hálfu ákæruvaldsins þá eru ekki miklar líkur á að það sé sakfellt. Og það er því miður svo með mikið af þessum efnahagsbrotum að þau eru mjög erfið viðureignar og þar af leiðandi mjög flókin þannig að það reynir vissulega á. En ég held það sé ekki af því menn eru að samsama sig þessum hópi sakborninga, öðru nær.“

Brattur niðurskurður

Það var sett fé í embætti sérstaks saksóknara til að byrja með en strax 2013, þegar rétt var búið að manna embættið, orðnir rúmlega 100 starfsmenn, var fjárveiting skorin niður og fækkað um fjörtíu starfsmenn. Var embættið skorið niður of fljótt?

„Já, það tel ég nú að hafi verið nokkuð snemma í ferlinu vegna þess að við erum að ná þessari tölu, rúmlega hundrað starfsmenn, á árinu 2012 þannig að það er ekki nema í rúmt ár að við erum með þann slagkraft og svo erum við tekin niður þarna 2013 um fjörtíu manns. Það hefur tvennslags áhrif. Það náttúrlega fækkar þeim höndum sem við erum með á málunum og þau verkefni sem sá hópur, sem fer, hafði á hendi færast á þá sem eftir verða. Þannig að þetta þyngir gríðarleg á starfseminni þegar svona stórt skref er stigið með niðurskurði. Og það verður líka að segjast eins og er að það að skera niður starfsemina svona bratt, það hafði ekki góð áhrif á starfsemina... Það þýddi þarafleiðandi að þau mál sem eftir sátu tóku miklu meiri tíma fyrir vikið í rannsókn þannig að já, þetta var frekar óheppilegt.“

Og niðurskurðurinn hafði áhrif.

„Það var allavega ekki hægt að fara nægilega djúpt ofan í ákveðna hluti og auðvitað var það þannig að sum þessara mála, sem við vorum með opin, urðu að bíða. Tíminn gerir þessum rannsóknum ekkert gott þannig að fyrir vikið urðu sum mál því miður bara of gömul.“ 

Vængstíft hvað varðar rannsóknarheimildir

Embætti sérstaks saksóknara átti alltaf að vera tímabundið, 2015 var stofnað Embætti héraðssaksóknara sem á þá meðal annars að annast rannsókn viðamikilla efnahagsbrota. En nýja embættið er vængstíft hvað varðar rannsóknarheimildir.

„Við höfum í raun minni heimildir. Ég tek bara sem dæmi aðgengi að gögnum í bönkunum. Í dag þurfum við úrskurði til að nálgast þau. Hér áður dugði okkur bara bréf, bara beiðni um gögn. Það var sértæk heimild í lögum um embætti sérstaks saksóknara um aðgengi að gögnum sem háð voru bankaleynd. Hún féll niður við það að embættið var lagt niður.“

Dómsúrskurður um leit er miklu meira stuðandi fyrir banka en beiðni um gögn og kerfið því allt stirðara. Ólafur segist hafa gert sér vonir um að nýja embættið fengi að halda fyrri heimild. Alltaf hefði verið reynt að fara vel með hana. Beiðnir hefðu verið í hófi og í góðri samvinnu við bankana og eins hafa hliðstæð embætti á Norðurlöndum þessa heimild.  

Það vekur einnig athygli að möguleikar til að nýta samvinnu við uppljóstrara, ,,whistleblowers," hafa verið minnkaðir, ekki lengur hægt að heita að þeir verði ekki saksóttir ef þeir upplýsa um verknað sem þeir hafa átt þátt í. Þessi breyting vekur nokkra undrun því alls staðar er einmitt verið að styrkja stöðu uppljóstrara í ljósi hlutverks þeirra í að upplýsa einmitt viðamikil mál. 

„Þetta er svolítið sérstakt í ljósi þeirrar umræðu, sem hefur átt sér stað um ,,whistleblowers," eða þá sem gefa upplýsingar, þannig að að vissu leyti var þarna skref til baka. En mér skilst það sé hugsanlega eitthvað verið að skoða þetta núna aftur og þá hugsanlega í eitthvað breyttri mynd.“

Embætti héraðssaksóknara hefur því þrengri heimildir en embætti sérstaks saksóknara hafði.

„Ærið dýrkeypt lexía“

Ólafur segir að þegar litið sé yfir undafarinn áratug blasi við miklar breytingar, hversu mikil vinna fór í eftirleik hrunsins, mikil átök sem fylgdu og enn sjái kannski ekki fyrir endann á þeim. En hafa menn þá lært nóg af reynslunni?

„Það ætla ég rétt að vona vegna þess að það má segja að þessi lexía sem við höfum dregið af hruninu, að hún sé ærið dýrkeypt.“

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV