Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Minni hálendisumferð

29.07.2013 - 22:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Umferð um hálendi Íslands hefur verið heldur minni það sem af er sumri en á síðasta ári. Þetta er mat landvarða og björgunarsveitarmanna á hálendinu.

Síðasta sumar var meiri umferð um hálendisvegi landsins en nokkru sinni, að mati þeirra sem best þekkja. Að sögn þjóðgarðsvarðar í Vatnajökulsþjóðgarði fjölgaði ferðamönnum í Laka og á Fjallabaksleið nyrðri til muna á milli ára en ásókn á þetta svæði hafði áður minnkað nokkuð eftir Grímsvatnagosið vorið 2011. Í sumar virðist hins vegar hafa dregið nokkuð úr umferðinni aftur og er tíðarfarinu, framan af sumri kennt um, öðru fremur.

Í síðustu viku, þegar sólin mætti á svæðið, þá fjölgaði hálendisförum til muna. Sjálfboðaliðar í hálendisgæslu Landsbjargar höfðu sömu sögu að segja en þeir hafa gætur á helstu hálendisleiðum. Þeir segja heldur færri á ferðinni, það sem af er sumri. Þess ber reyndar að geta að sumir hálendisvegir voru opnaðir mjög seint eins og gamla Grímsvatnaleiðin sem varð ekki fær fyrr en í síðustu viku. Töluvert hefur verið um að fólk þurfi aðstoð á hálendinu án þess þó að það hafi lent í stórum vandræðum. Þá ber landvörðum og Björgunarsveitarmönnum saman um að umgengni ferðalanga á hálendinu hafi verið bærileg í sumar.