Minna öryggi eftir því sem börn eru eldri

21.11.2017 - 11:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tvö prósent barna eru laus í bílnum í dag, samkvæmt árlegri könnun Samgöngustofu. Þetta er mikill munur frá því Samgöngustofa byrjaði að kanna öryggi barna í bílum árið 1985, þá voru um 80 prósent barna voru laus í bílnum.

Athygli vekur að 28 börn voru ekki í neinum öryggisbúnaði hjá ökumanni sem var sjálfur í bílbelti. Í könnunni sem gerð var í byrjun sumars voru 47 ökumenn ekki með barn í öryggisbúnaði og um 108 ökumenn höfðu börn sín aðeins í bílbelti, sem er ekki fullnægjandi öryggisbúnaður barna á leikskólaaldri. 

Ísafjörður, Selfoss og Reyðarfjörður til fyrirmyndar

Búnaður hjá yfir tvö þúsund börnum var kannaður við 56 leikskóla í 29 þéttbýliskjörnum víða um land. Á Ísafirði, Selfossi og Reyðarfirði voru öll börn í réttum öryggisbúnaði. Garður var með verstu útkomuna í könnuninni þetta árið en þar var öryggisbúnaður í lagi í innan við 80% tilvika. Í Grundarfirði, Hellissandi, Bolungarvík og Fáskrúðsfirði var öryggi einnig ábótavant þar sem öryggisbúnaður var réttur í rúmlega 80% tilvika.

Búnaður þarf að passa bæði barni og bíl

Svo virðist sem foreldrar slaki á örygginu eftir því sem börn verða eldri en í könnuninni voru 20% sex ára barna í engum öryggisbúnaði eða eingöngu í bílbelti. Barn lægra en 135 cm á hæð á að vera í öryggisbúnaði sem hæfir hæð þess og þyngd. Öll börn undir eins árs voru í réttum öryggisbúnaði og yfir 95% tveggja til þriggja ára barna. Meira en 90% fjögurra til fimm ára barna voru í réttum búnaði. 

Búnaður þarf að passa bæði barninu og bílnum, mikilvægt er að lesa allar leiðbeiningar sem fylgja barnabílstólnum og bílnum. Barn getur slasast þótt það sé í öryggisbúnaði ef hann er ekki festur rétt í bílinn.
 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi