Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Minna fé í menntun hér

10.06.2012 - 18:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslendingar verja minna fé á hvern háskólanema en gert er að meðaltali í OECD-löndunum. Rektor Háskólans í Reykjavík segir þetta geta hamlað aukinni verðmætasköpun í landinu til lengri tíma litið.

Rektor Háskólans í Reykjavík segir að með niðurskurði í menntakerfinu minnki möguleikar til að auka verðmætasköpun og bæta lífskjör. Framlög ríkisins til hvers háskólanema á Íslandi séu fjórðungi minni en að meðaltali í OECD-löndunum.

Rektor tæpti á því í ræðu sinni við útskrift í HR í gær að mikill munur væri á framlögum til menntamála á Íslandi og í öðrum OECD löndum. Á Íslandi væri meðalframlag á hvern nemanda aðenis 75% af því sem það er í OECD-löndunum og 58% af framlagi á hvern nemanda annars staðar á Norðurlöndunum. Þar vitnar hann í skýrslu OECD, þar sem stuðst er við tölur frá árinu 2008. Hann segir að síðan 2008 hafi verið dregið enn frekar úr útgjöldum eða um fjórðung að raunvirði. 

„Þannig að í dag held ég að í besta falli megi gera ráð fyrir að háskólar á Íslandi séu að fá tæplega helminginn á nemanda sem að, í samanburði við Norðurlöndin," segir Ari Krisitnn Jónsson, rektor HR. 

Ari segir að í atvinnulífinu kvarti margir yfir skorti á tæknimenntuðu fólki. „Fjárveitingar til Háskólans í Reykjavík hafa verið skornar meira niður heldur en fjárveitingar til annarra háskóla og það finnst okkur sérstaklega illskiljanlegt í ljósi þess að við erum langstærsti tækniháskóli landsins," segir hann. 

Ari segir að þau lönd sem Íslendingar beri sig saman við hafi lagt mikið upp úr því að vernda háskólakerfið á krepputímum. Háskólar séu uppspretta nýrra hugmynda og gegni mikilvægu rannsóknarhlutverki sem síðan skapi verðmæti fyrir samfélagið. Aukin verðmætasköpun sé svo aftur forsenda þess að bæta lífskjör í landinu.