Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Minkur fer á kreik í Reykjavík á vorin

30.03.2014 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Á hverju ári veiðast tugir minka í borgarlandinu en þeim hefur þó heldur fækkað síðustu ár. Fyrir nokkrum árum veiddust á annað hundrað minka í Reykjavík. Minka verður helst vart í borginni á á vorin og svo aftur á haustin.

Guðmundur Björnsson rekstarstjóri hjá Meindýravörnum Reykjavíkurborgar segir að alltaf verði vart við mink, annað slagið. Það sé helst á fengitíma hans á vorin og svo þegar hvolparnir fari af stað á haustin, samt beri minna á mink nú en fyrir nokkrum árum. Fyrir nokkru  hafi veiðst rúmlega hundrað minkar í Reykjavík á hverju ári, en síðustu ár hafi þeir skipt tugum, 50-60 dýr veiðist á ári. 

Minkurinn fer með ströndinni og fylgir ám og vötnum.  Fyrir nokkrum árum gerðist það oftar en einu sinni að  minkur gerði sig heimakominn við Tjörnina í Reykjavík. Hann er ekki aufúsugestur við veiðiár og varplönd. Guðmundur segir ekki oft sem meindýraeyðar séu kallaðir til vegna minks. Meindýravarnirnar séu hins vegar með reglubundnar aðgerðir gegn honum, bæði gildrur og svo sé farið með hunda á ákveðnum tímum. En hvað með refinn? Í útlöndum er hann víða orðinn hluti af fánunni í borgum.

Guðmundur segir að enn hafi ekki mikið borið á ref í Reykjavík.  Stundum sjáist refur í útjaðri borgarinnar en langt sé í að hann verði jafn kræfur og erlendis og fari að koma í sorptunnur og annað slíkt.