Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minjar glatast vegna loftslagsbreytinga

12.07.2019 - 06:33
Mynd með færslu
Nuuk. Mynd: Oliver Schauf - Wikipedia
Töluverðar líkur er á því að að minjar á Grænlandi geti horfið á næstu 80 árum vegna hlýnandi loftslags. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birt var í Nature í dag.

Fornminjar er samkvæmt rannsókninni að finna á yfir 180 þúsund stöðum þvert yfir norðurskautið, sumar þeirra fleiri þúsund ára gamlar. „Vegna þess að niðurbrot stjórnast beint af hitastigi jarðvegsins og raka, þá getur hækkandi hitastig og breytingar í úrkomu í frostlausu árstíðunum leitt til þess að mikilvægir lífrænir hlutir eins og minjar úr tré, beini og forn erfðaefni glatast, segir í rannsókninni

Rannsóknin fór fram á sjö mismunandi stöðum nærri höfuðborginni Nuuk undir stjórn Jorgen Hollesen og hófst hún árið 2016. Nokkrar af minjunum eru taldar vera frá tímum víkinga. 

Í rannsókninni er því spáð að meðalhiti á Grænlandi geti hækkað um allt að 2,6 gráður, sem myndi leiða til þess að jarðvegshitastig yrði hærra og tímabil þíðu lengri. Það auki virkni örvera í lífrænum leifum. „Niðurstöður okkar sýna að 30 til 70 prósent af fornum lífrænum kolefnum gætu glatast á næstu 80 árum,“ hefur AFP eftir Hollesen. Þetta þýði að hætta er á að minjar sem sumar veita einstaka innsýn í líf fyrstu íbúa Grænlands um 2.500 fyrir Krist glatist. 

Samanburður við fyrri rannsóknir á sömu stöðum sýndu að niðurbrot var þegar hafið. „Á sumum þessum stöðum fundum við engin heil bein eða brot úr tré, sem bendir til þess að þetta hafi brotnað niður á síðustu áratugum,“ segir Hollesen. 

Úrkoma gæti dregið úr niðurbroti örvera, segir Hollesen. „Meiri úrkoma myndi vera góð og minni úrkoma slæm. Ef lífræn lög haldast rök þá kemst súrefni síður að þeim en og þar af leiðandi ekki örverur heldur til að brjóta þau niður.“

Á öðrum heimskautasvæðum eins og Alaska hafa hundruð fornminja komið í ljós vegna þess að sífreri hefur þiðnað vegna hlýnunar. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV