„Mín dagbók er svolítið opin“

27.05.2018 - 19:30
Mynd: RÚV / RÚV
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, segir að formlegar meirihlutaviðræður séu ekki hafnar í borginni en að óhætt sé að segja að þreifingar séu byrjaðar. Viðreisn er í oddastöðu í Reykjavík og mjög ólíklegt að meirihluti verði myndaður án flokksins. Þórdís telur að málin fari að skýrast á næstu dögum, hún sé ekki búin að bóka neina fundi. „Ekki eins og staðan er. Mín dagbók er svolítið opin.“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, segist tilbúin til að vinna með öllum en niðurstaða kosninganna sé ákall um breytingar.  „Þetta er svolítið skemmtileg staða sem við erum komin með. Við erum ekki lengur með gamla fjórflokkinn. Við erum með þríflokk og svo Pírata sem voru uppreisnarseggir til að byrja með en eru partur af the establishment [ráðandi kerfi] í dag og svo alveg glænýja fjóra flokka sem allir ná inn samtals fimm borgarfulltrúum. Þetta er bara svolítið nýtt landslag og þetta kallar á nýja hugsun og breytingar. Bæði hvað varðar málefni og hvernig við byggjum þetta upp.“

Þórdís segir að Viðreisn gangi til samninga á grundvelli málefnasamnings. Enn sé of snemmt að tala um meirihlutaviðræður. Hún hafi byrjað á því að hitta baklandið og ráða ráðum með Viðreisnarfólki í dag. Þórdís segir viðræður ekki hafnar. „Allavega ekki hjá okkur en það eru þreifingar hafnar. Það er alveg greinilegt og það er verið að hringja hægri vinstri eins og maður segir.“  

Fram kom í Silfrinu í dag að Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, gerir kröfu til sætis borgarstjóra. „Hefðin hefur verið sú að stærsti flokkurinn í borginni leiði og taki með sér þær raddir sem fái stuðning. Við erum alltaf hérna saman að tala saman. Ég heyri hvað þið segið.  Ég held að þessar nýju raddir sem við erum komin með, ég heyri raddir eins og maðurinn sagði. Ég trúi því að við náum saman um breytingar. Það er eina vitið.“

Meirihlutinn sem nú er að fara frá vill halda áfram og fá til liðs við sig fleiri flokka. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, hefur útilokað meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. „Ég held að það sé klárt að til dæmis meginlínurnar í aðalskipulaginu og þær áherslur hafa meirihlutastuðning í nýrri borgarstjórn og þetta eru meðal stóru málanna á næsta kjörtímabili,“ sagði Dagur í Silfrinu í dag. Þú vilt mynda stjórn miðað við línur í aðalskipulagi? „Mér finnst það ekki óeðlilegt eftir umræðuna í aðdraganda kosninga og í ljósi þeirra úrslita sem nú liggja fyrir.“

 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi