Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Miltisbrandsfaraldur í Frakklandi

20.08.2018 - 15:05
Miltisbrandsgró
Miltisbrandsgró. Mynd: Wikipedia
Nú geisar í Frakklandi versti faraldur miltisbrands í um tvo áratugi og ráðamenn vara við skorti á bóluefni. Sjúkdómurinn hefur greinst á 28 sveitabæjum frá júnílokum en hann hefur ekki enn borist í mannfólk svo vitað sé.

Miltisbrandur smitast með gróum sem geta lifað í jarðvegi í áratugi, til að mynda í hræjum dýra.

Franskir dýralæknar hafa barist við að halda sjúkdómnum í skefjum með bólusetningum en meira en 50 kýr, kindur og hross hafa drepist af völdum hans síðan fyrsta tilfellið kom upp 28. júní í þorpinu Montgardin í suðausturhluta landsins. Þá drápust 12 kýr og sex aðrar smituðust. 

Spænsk rannsóknarstofa sem framleiðir bóluefni gegn miltisbrandi hefur verið lokuð í ágúst vegna sumarleyfa og birgðir franskra yfirvalda eru farnar að þverra. Verið er að ræða við stjórnvöld í öðrum Evrópuríkjum um kaup á bóluefni.

Afar sjaldgæft er að mannfólk smitist af miltisbrandi úr búfénaði og ekki vitað til þess að slíkt hafi gerst í sumar í Frakklandi að því segir í frétt AFP. Talið er að rúmlega hundrað manns hafi komist í snertingu við smituð dýr; bændur, dýralæknar og starfsfólk sláturhúsa.

Miltisbrandur kom síðast upp hér á landi í desember árið 2004. Nær ómögulegt er að vita nákvæmlega hvar miltisbrandsgró er að finna í urðuðum dýrahræjum hér á landi. Heimildir um slíkt eru ýmist ekki til eða ónákvæmar.

Árið 2001 létust fimm og 17 urðu alvarlega veikir eftir að sérfræðingur í efnavopnum, Bruce Edwards Ivins, sendi bréf með miltisbrandi til fjölda fólks í Bandaríkjunum aðeins viku eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september.