Milljónagreiðslur algjör undantekning

16.02.2018 - 08:18
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. - Mynd: RÚV / RÚV
Það heyrir til algjörra undantekninga að fólk fái aksturspeninga upp á margar milljónir á ári segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Hann ræddi útreikninga á aksturskostnaði í Morgunútvarpinu á Rás 2, og ástæður þess að þingmenn geti fengið mun meira endurgreitt fyrir ferðakostnað en þeir leggja út.

Samkvæmt svari forseta Alþingis við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, fengu sjö þingmenn yfir tvær milljónir í aksturskostnað í fyrra og þar af þrír yfir þrjár milljónir. Hæsta greiðslan er tvöfalt hærri en nemur útlögðum kostnaði samkvæmt útreikningum FÍB.

„Ég held ég megi fullyrða að það sé algjör undantekning í samfélaginu að einhver sé að þiggja aksturspeninga fyrir svona mikinn akstur árlega. Í flestum tilfellum eru fyrirtæki og aðilar að greiða þessar akstursgreiðslur vegna aksturs starfsmanna sem eru iðulega í skemmri vegalengdir,“ sagði Runólfur í Morgunútvarpinu. 

Greiddar eru 110 krónur á kílómetra fyrstu tíu þúsund kílómetrana, 99 krónur á kílómetra upp að 20 þúsund kílómetrum og 88 krónur eftir það, samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar. Runólfur segir að á styttri vegalengdum geti 110 króna greiðsla á hvern kílómetra verið of lág til að standa undir kostnaði. Það sé vegna þess að bílar eyði mestu og slitni mest við stuttar akstursferðir. Þeim mun meira sem bíl er ekið þeim mun lægri verður rekstrarkostnaðurinn á hvern ekinn kílómetra. Þetta er vegna þess að kaupverð bílsins og fjárbinding í honum vegur því minna sem aksturinn verður meiri. 

Runólfur sagði að ef þingmenn ækju um fimmtán þúsund kílómetra á ári færi nærri að þeir fengju endurgreiddan þann kostnað sem þeir leggja út fyrir. Miðað er við að þingmenn fari á bílaleigubíl ef þeir aka meira en það en sumir þingmenn hafa neitað að verða við því.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi