Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Milljarðatjón hjá uppsjávarfyrirtækjunum

25.03.2019 - 09:42
Mynd með færslu
Athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Neskaupstað Mynd:
Loðnubresturinn hefur víðtæk áhrif við sjávarsíðuna og fyrirtæki í uppsjávarvinnslu verða af milljörðum við það að tapa heill  i loðnuvertíð. Og þó að menn séu ýmsu vanir í þessum sveiflukennda iðnaði er ónýt vertíð þungt högg og viðbúið að það einkenni rekstur fyrirtækjanna næstu mánuði.

Þrjú af stærstu uppsjávarfyrirtækjum landsins eru í Fjarðabyggð og þar var tekið á móti nærri helmingi alls loðnuafla síðasta árs. Fyrir þessi fyrirtæki er mjög erfitt að missa heila loðnuvertíð út út rekstrinum.

Mjög rólegt síðan um áramót og beðið eftir loðnunni

„Þetta er mikið högg og það er búið að vera mjög rólegt hjá okkur síðan um áramót. Og margir að bíða eftir loðnu“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf. „Það er dálítið erfitt að segja alfarið hvað við erum að missa mikið, því loðnuvertíðirnar undanfarið hafa verið frá 100 þúsund tonnum í 300 þúsund tonn. En svona miðað við vertíðina í fyrra þá má segja að við séum að tapa þremur og hálfum milljarði, eitthvað slíkt, út úr veltu.“

Öll afkoma Eskju byggð á uppsjávarfiski

Á meðan Síldarvinnslan í Neskaupstað og Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði eru í blandaðri starfsemi, uppsjávarfiski og bolfiski, byggir Eskja á Eskifirði alla sína afkomu á uppsjávarfiski. „Já, þetta er mikið högg fyrir okkur. Þetta er líklega svona 2,2 milljarða tekjutap fyrir okkur,“ segir Benedikt Jóhannsson, yfirmarður landvinnslu hjá Eskju hf. „Við höfum, í janúar og febrúar, bara verið að gera okkur klár fyrir loðnuvertíð. En núna reynum við að finna einhver verkefni fyrir fólkið okkar fram að því er við byrjum á makrílvertíð.“  

Uppsjávarfrystihúsið verkefnalaust í 8 mánuði 

Árið 2016 var nýtt uppsjávarfrystihús tekið í notkun hjá Eskju, fjárfesting upp á um fimm milljarða króna. Húsið hefur staðið ónotað síðan í nóvember og ekki útlit fyrir nein verkefni þar fyrr en á makrílvertíðinni í júlí. Benedikt segir afar erfitt að láta svona fjárfestingu standa ónotaða. „Já, það er mjög erfitt, það tekur í. En við komumst nú samt af, eina loðnuvertíð.“

Fyrirtækin þurfi að laga sig að því sem framunda er

Starfsemi í uppsjávarveiðum og -vinnslu er mjög sveiflukennd og í þessum rekstri þurfa menn stöðugt að vera á varðbergi og laga sig að ólíkum og oft öfgafullum aðstæðum. „En það er auðvitað óvænt þegar skrúfast svona algerlega fyrir tekjustreymið, þá er það auðvitað mjög þungt,“ segir Gunnþór. „Þannig að ég held að það sé ekkert bara út af loðnu, ég held að fyrirtæki hljóti að vera að taka til og fara ofan í sín módel og aðlaga sína fjárbindingu og fjárfestingar að því sem að þau halda að sé framundan.“