Milljarðar töpuðust á sölu Glitniseigna

15.03.2014 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Um 160 milljarðar króna kunna að hafa tapast með skyndisölu þriggja Glitniseigna í hruninu. Þetta er mat Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, stjórnmálafræðiprófessors, sem hefur skoðað sölu eigna bankans í Noregi og Finnlandi. Hann telur þörf á að upplýsa þetta frekar.

Hannes var meðal fyrirlesara á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir helgi. Þar ræddi hann viðskiptasiðferði og bankahrunið. Tók hann dæmi af sölu þriggja Glitniseigna í Noregi og Finnlandi þar sem íslensk fjármálafyrirtæki hafi ekki fengið sömu fyrirgreiðslur og í öðrum löndum, til dæmis skyndilán frá seðlabönkum.

Skyndisala hafi verið þvinguð fram. Telur hann að tap Íslendinga af þeim nemi um hundrað og sextíu milljörðum króna samtals því ef verðþróun sé skoðuð þá hafi finnski bankinn til dæmis fjórfaldast í verði frá því sem bókfært var 2008. 

 

Spurningar vakna

Sem dæmi hafi norski seðlabankinn vísað Glitni Bank ASA á Tryggingasjóð innstæðueigenda í Noregi. 

„Það vildi svo til að stjórnarformaður innstæðutryggingasjóðsins, Finn Haugen, réðst síðan í það ásamt hópi fjárfesta og sparisjóða að kaupa bankann,“ segir Hannes.

„Og það vakna ýmsar spurningar sem ég bar nú upp við innstæðutryggingasjóðinn norska um það hvernig að þessari sölu hefur verið staðið. Því að það eru til heimildir um það að sagt hafi verið að þessar lánalínur yrðu ekki framlengdar nema í nokkra daga, en þær voru framlengdar eftir að þessi hópur norskra fjárfesta og sparisjóða höfðu keypt bankann."

Hannes segir að mikil orka hafi farið í að finna sökudólga hrunsins á Íslandi.

„En hvað um útlendingana sem notuðu tækifærið, nýttu sér tímabundna neyð okkar, hirtu eignir af okkur á smánarverði og jafnvel áttu þátt í því að þessar eignir þurftu að vera settar á brunaútsölu í stað þess að seðlabankar veittu lán svo hægt væri að selja þessar eignir á lengri tíma?“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi