Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Milljarðaframkvæmdir á Grundartanga

10.10.2012 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Verkefni fyrir á annan tug milljarða eru í farvatninu hjá Norðuráli á Grundartanga. Fyrirhugaðar framkvæmdir gætu aukið framleiðslugetu álversins um 30 til 50 þúsund tonn á ári.

Framleiðslan á Grundartanga hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og er nú komin í 284 þúsund tonn á ári. Nú eru fyrirhugaðar framkvæmdir sem eiga að auka framleiðslugetuna enn frekar. Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls segir þetta fjárfestingu upp á á annan tug milljarða hér á landi auk þess sem keypt verður rafskautaverksmiðja í Hollandi.

„Þetta felst í því að við erum að stækka rafskautin sem við erum að nota í framleiðslunni hjá okkur og sömuleiðis erum við að stækka aðveitustöðina, kaupa viðbótarbúnað í háspennukerfið hjá okkur og þetta leiðir til þess að við eigum að geta framleitt á bilinu 30 til 50 þúsund tonn meira á ári að því gefnu að tilskilin leyfi fáist,“ segir Ragnar.

Ragnar segir að framkvæmdirnar, sem munu taka um fimm ár, muni auka samkeppnishæfni álversins til muna, það sem helst valdi áhyggjum séu þær tímabundnu skattaálögur sem álverið og önnur stóryðjufyrirtæki tóku á sig árið 2009. „Það er skýrt tekið fram í því samkomulagi að þessar tímabundnu álögur eiga að falla niður í árslok 2012. Þess vegna kemur það mjög á óvart að það sé lagt til núna í fjárlagafrumvarpi tillögur um að ganga á bak þessa samkomulags.“