Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Mildi að ekki fór verr

21.07.2013 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Það hefði getað farið verr þegar þotu hlekktist á í lendingu á Keflavíkurflugvelli í morgun. Vélin, sem er rússnesk af gerðinni Sukhoi Superjet 100, er mikið skemmd.

Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir mikla hættu hafa verið á ferðum og það hefði getað farið verr. „Það er allavega ljóst varðandi þessa fimm aðila sem voru þarna um borð að það hefði klárlega getað farið verr. Síðan er ekkert langt í byggðina, hún er bara þarna nokkur hundruð metra fyrir neðan,“ segir Skúli. 

Fimm menn voru um borð, fjórir sluppu ómeiddir en einn ökklabrotnaði. Upphaflega var þó talið að sjö menn væru um borð í vélinni, sem tekur rúmlega 100 manns í sæti. Vélin er mikið skemmd og en báðir hreyflar hennar brotnuðu. Vélin er ekki enn komin á markað, en vél af sömu gerð fórst við æfingaflug í Indónesíu í fyrra með þeim afleiðingum að 50 manns fórust.