Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Miklu meira en ég bjóst við“

19.09.2015 - 16:23
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
„Það gleður mig mjög að sjá þessa upphæð. Þetta er miklu meira en ég bjóst við,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, kapteinn Pírata, um þá fjárhæð sem ríkistjórnin hyggst verja til málefna flóttafólks. Á næstu tveimur árum hyggst ríkistjórnin verja tveimur milljörðum í aðstoð við flóttafólk.

Ekki er talað um það í fréttatilkynnningu frá ríkistjórninni hversu mörgum flóttamönnum verður tekið við. Ríkistjórnin leggur til að fénu verði varið í þrennt: til fjárstuðnings við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök, til móttöku flóttafólks og hælisleitenda til Íslands og til aðgerða sem umbylt geta og hraðað afgreiðslu hælisumsókna hér á landi.

Helgi Hrafn segir það í sjálfum sér ekki koma á óvart að ekki sé gefinn upp nákvæmur fjöldi flóttamanna eins og staðan er núna. „Það getur verið svolítið snúið að reikna nákvæmlega í hvað kostnaðurinn fer,“ segir Helgi Hrafn.

Hann leggur áherslu á að verja þurfi fé í að leysa vanda þeirra hælisleitenda sem enn bíða eftir úrlausn á málum sínum hér á landi: „Ég vona að þetta fé fari líka í vandann sem er uppsafnaður hér heima, sér í lagi að við förum að taka meira af umsóknum efnismeðferðar. Við eigum að senda fólk í sem minnstu Dylfinarreglugerðarinnar,“ segir Helgi Hrafn. Á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar er hægt að senda fólk til baka til þess Schengen lands sem það kom fyrst til.

Helgi segir tillöguna stórt stökk fram á við. „Þetta er miklu meira en við verjum í þessi mál nú þegar.“ Hann býst ekki við öðru en að hann samþykki hana þegar hún verður lögð fram á Alþingi. „En manni hlýtur að líða eins og maður sé staddur í lokaatriði Schindler's list, maður getur alltaf bjargað fleirum - þetta eru mannslíf,“ segir Helgi Hrafn.