Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Miklir möguleikar í textíl

Mynd:  / 

Miklir möguleikar í textíl

28.03.2019 - 14:48

Höfundar

„Fólk vill sögur á bak við hlutina sem það velur sér og meðvitund um umhverfisáhrif þess sem við notum er alltaf að aukast,“ segir Ragna Fróðadóttir, formaður Textílfélagsins, en félagið opnaði sýninguna Líf eftir líf í tengslum við HönnunarMars í Veröld, húsi Vigdísar.

Á sýningunni Líf eftir líf, sem haldin verður í Veröld, húsi Vigdísar, er áhersla lögð á nýja myndbirtingu arfs, endurtekningu, lífsgang, nýtt upphaf og endurnýtingu. Þetta er samsýning á vegum Textílfélagsins sem heldur upp á 45 ára afmæli í ár.

Rætt var við Rögnu Fróðadóttur formann félagsins í Víðsjá á Rás 1. Hún segir að Veröld verði undirlögð textíl næstu daga. „Á þessari sýningu sýna 26 listakonur og hönnuðir verk sín, síðan verður hér opnuð á föstudaginn sýningin Voðaverk, með verkum Lilýjar Erlu Adamsdóttur og Ýrar Jóhannsdóttur. Við höldum líka textílráðstefnu og við tökum á móti stórum hópi textílfólks frá Norðurlöndum. Hingað koma þekktir textílfræðimenn og spekúlantar sem ætla að segja frá sýn sinni á fagið og framtíðina. Þannig að hér er allt bókstaflega að fyllast af textíl.“

Sjálfbærni lykilatriði

Eins og allir vita þá hefur umræða um mengandi áhrif tískuheimsins verið ofarlega á baugi að undanförnu. „Þetta er einmitt helsta umfjöllunarefnið í dag og í raun það sem við erum að fást við bæði í fatahönnun og í textílheiminum. Það eru allir að reyna að finna leiðir til að snúa við þessari þróun þar sem textíll er orðinn annar mesti mengunarvaldur í heimi á eftir olíu. Hluti af þessu snýst um að vekja fólk til meðvitundar um hvað það þýði að kaupa sér nýja flík í hverri viku, nota hana einu sinni og henda henni svo. Þarna er stórt verkefni að vinna og í raun er þessi umræða helsta áskorun allra þeirra sem vinna með textíl og fatahönnun. Ég lít á þetta sem spennandi áskorun, nú erum við komin með einhvern ramma sem við þurfum að vinna innan og finna lausnir á til framtíðar. Samt þurfum við áfram að búa til fallega, vandaða og spennandi hluti. Þetta skiptir ótrúlega miklu máli.“

Hvar eru strákarnir?

Ragna, sem jafnframt er deildarstjóri textílnáms í Myndlistarskólanum í Reykjavík, segir að í hinu 45 ára Textílfélagi sé meðlimum alltaf að fjölga, þeir séu núna orðnir nærri hundrað að tölu en því miður bara konur.

„Ég er alltaf að spyrja: „Hvar eru strákarnir? Af hverju komið þið ekki líka og lærið textíl?“ Ég hef fengið einn pilt sem nemanda á þessum þremur árum sem ég hef verið yfir þessu námi. Erlendis er þetta miklu jafnara. Textíll veitir manni frábær tengsl við efnið sem unnið er með. Námið er fjölbreytt og eykur heilmikið sjálfbærni þeirra sem að vilja vinna til dæmis að fatahönnun.“

Rætt var við Rögnu Fróðadóttur í Víðsjá á Rás 1 en sýningin er hluti af HönnunarMars sem hefst í dag. Allar upplýsingar um hátíðina má finna hér.