Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Miklar líkur á gosi

31.10.2010 - 19:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir allar mælingar benda til þess að hlaupið sem nú er hafið í Grímsvötnum verði með svipuðu sniði og síðast. Miklar líkur séu á gosi þegar líði á hlaupið. Engin ástæða sé til að óttast og engar stórhamfarir séu í uppsiglingu. Vegakerfið sé vel í stakk búið til að takast á við hlaupið.

Nokkur aðdragandi hefur verið að því hlaupi sem nú er hafið. Vatnshæðin í Grímsvötnum hefur verið mikil í haust og farið sívaxandi. Nokkar jarðhæringar hafa verið á svæðinu í vestanverðum Vatnajökli síðustu daga og vísindamenn telja að vatn hafi byrjað að seytla úr katlinum á fimmtudaginn. Páll segir hlaupið smátt og smátt hafa verið að sækja í sig veðrið. Reyndar hafi stormurinn sett strik í reikninginn vegna þess að mælitæki hafi ekki verið eins næm fyrir hlaup óróanum sem kemur á skjálftamælana. Hann segir ekki efni í mjög stórt hlaup. Grímsvötn safni ekki eins miklu vatni í sig eins og þau hafi gert í fyrri tíð. Þetta verði sennilega svipað hlaupinu sem varð 2004.

Þá náð hlaupið hámarki á rúmum fimm sólahringum. Páll segir miklar líkur á að það gjósi úr eldstöðinni í Grímsvötnum þegar líður undir lok hlaupsins eins og síðast. Hann segir hlaupið hafa virkað eins og gikk á eldstöðina og hleypt gosinu upp. Aðstæður í Grímsvötnum núna séu nákvæmlega eins. Hann segir gosið árið 2004 hafa verið lítið og meinlaust. Ekki stefni í neitt annað núna.