Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mikilvægur fundur á frumteikningum Högnu

Mynd:  / 

Mikilvægur fundur á frumteikningum Högnu

07.12.2018 - 12:22

Höfundar

Nýlega fundust teikningar og bréf Högnu Sigurðardóttur arkitekts á heimili dótturdóttur hennar í París. Pétur Ármannsson hefur skoðað gögnin og segir fundinn gríðarlega mikilvægan fyrir arfleifð Högnu og sögu íslenskrar byggingarlistar. Bagalegt sé þó að slík gögn eigi sér engan samastað á Íslandi.

Högna Sigurðardóttir er einn af okkar merkustu arkitektum auk þess að vera fyrst kvenna til að starfa sem arkitekt hérlendis. Hún ólst upp í Vestmannaeyjum en fluttist ung til Parísar þar sem hún lærði arkitektúr. Hún útskrifaðist árið 1960, efst af 300 nemendum, og hlaut auk þess sérstaka viðurkenningu fyrir lokaverkefni sitt, Garðyrkjubýli í Hveragerði. Í kjölfarið hlaut Högna atvinnuréttindi í Frakklandi þar sem hún  bjó og starfaði alla tíð, en eftir hana standa nokkrar byggingar hér á landi, þar á meðal fimm íbúðarhús sem eru talin vera meðal merkustu bygginga Íslands, og víðar, á seinni hluta 20.aldar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Steinsteypuöldin
Húsið sem Högna teiknaði fyrir Ragnheiði Jónsdóttur og fjölskyldu hennar við Bakkaflöt 1 í Garðabæ, var friðað árið 2011.

Eftir að Högna lést, árið 2017, var ekki vitað hvað hefði orðið um frumteikningar hennar af verkum hér á Íslandi en þau gleðilegu tíðindi bárust nýlega að einhverjar teikningar hefðu komið í leitirnar heima hjá dótturdóttir Högnu sem býr í París, Klöru Anspach. Klara hafði samband við Pétur Ármannsson arkitekt og þau ákváðu í sameiningu að Pétur færi út til Frakklands að skoða teikningarnar með fjölskyldu Högnu. Pétur er nýkominn frá París þar  sem það ánægjulega kom í ljós að um er að ræða frumteikningar á byggingum Högnu hér á landi.

Mynd með færslu
 Mynd: Steinsteypuöldin - skjáskot - RÚV
Stofan í Brekkugerði í Reykjavík, frá 1963.

„Þetta voru um fimmtán upprúllaðar rúllur og auk þess talsvert af skjölum, bréfum og öðru slíku sem tengjast þessum verkefnum. Fyrir rannsóknir sem tengjast hennar verkum og varðveislu þá er þetta gríðarlega merkilegur fundur og mikilvægt að þau séu til því Högna er mjög einstæður arkitekt í okkar byggingarsögu á 20.öld,“ segir Pétur Ármannsson.

Mynd með færslu
 Mynd:
Ein af teikningunum sem fundust í París. Teikningarnar eru margar af óbyggðum húsum og hafa ekki sést áður.

Verk Högnu hafa lengi verið mikils metin langt utan landssteinana, sérstaklega í Frakklandi en líka víðar. Íbúðarhúsið sem Högna teiknaði fyrir Ragnheiði Jónsdóttir myndlistarkonu og fjölskyldu hennar við Bakkaflöt í Garðabæ er til þekkt langt út fyrir landssteinana og verið valið af alþjóðlegum samtökum arkitekta sem ein af hundrað merkustu byggingum 20.aldar.

„Þar tókst Högnu að flétta saman í mjög fullkomnu verki, annars vegar mjög framsækinni nútímalist og hinsvegar huglægu minni úr fornum íslenskum byggingararfi,“ segir Pétur.

Mynd með færslu
 Mynd:

Varðandi varðveislu skjalanna og rannsóknir á arfleifð Högnu segir Pétur það miður að byggingarlistin eigi sér enga samastað í íslenskum söfnum. „Það var á tímabili starfrækt sérstök deild við Listasafn Reykjavíkur, en þvi miður eftir hrunið þá varð samdráttur í fjárhag þess safns, og aðrir stjórnendur komnir til sögunnar sem höfðu ekki sama metnað og fyrri stjórnendur, eða skilning á því að þetta væri sniðug hugmynd, að líta á sjónmenntir almennt sem viðfangsefni listasafan en ekki bara myndlist í þröngum skilningi.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Meðal skjalanna sem fundust í París voru teikningar af kúluhúsum.
Mynd með færslu
 Mynd:
Högna við útskriftarverkefni sitt, Garðyrkjubýli í Hveragerði.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Heimþráin og ljóðrænar byggingar Högnu

Menningarefni

Högna Sigurðardóttir látin