Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mikilvægt að tilkynna sýktar tölvur

29.06.2017 - 12:57
epa06053459 A computer screen displays binary code in Taipei, Taiwan, 28 June 2017. Kaspersky Lab reported that the malware, despite resembling 'Petya' malware that affected computers last year, is believed to be a new type of ransomware, which
 Mynd: EPA
Ef tölva reynist sýkt af spilliforriti sem notað var í viðamikla netárás á þriðjudag er mikilvægt að tilkynna það netöryggissveitinni CERT-ÍS. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Póst- og fjarskiptastofnun. Spilliforritið beitir líklega nýju afbrigði af hugbúnaði sem þekktur er undir nafninu Petya og herjar nú á tölvukerfi í nokkrum löndum svo sem Danmörku, Bretlandi, Úkraínu og Rússlandi.

Póst- og fjarskiptastofnun lýsir forritinu sem gagnagíslatöku þar sem gögn í sýktri tölvu eru dulrituð og krafist lausnargjalds svo afkóða megi gögnin. Vísbendingar eru um að þetta afbrigði noti sömu smitleið og WannaCry sem fréttir bárust af í síðasta mánuði. Microsoft hefur gefið út öryggisuppfærslu sem lokar þeirri smitleið.

Árásin á þriðjudag hefur meðal annars haft áhrif á rússneska olíufélagið Rosneft, bandaríska lyfjarisann Merck og danska skipafélagið Maersk. Þá greindi seðlabanki Úkraínu frá því í dag að starfsemi hefði raskast í mörgum bönkum, fjármálastofnunum og fyrirtækjum þar í landi.

Póst- og fjarskiptastofnun mælir með því að viðkvæm gögn séu afrituð reglulega svo þau tapist ekki í árásum sem þessum. Afrit skal helst geyma þannig að þau séu ekki tengd við tölvur eða net. Þá er fólk minnt á að uppfæra vírusvarnir og smella ekki á viðhengi eða hlekki sem koma í óumbeðnum tölvupósti.