Mikilvægt að rödd ungs fólks heyrist

Mynd: RÚV / RÚV

Mikilvægt að rödd ungs fólks heyrist

14.03.2017 - 07:30

Höfundar

„Ég hef alltaf haft mikla jafnréttiskennd þannig að þetta starf hugsa ég bara að sé tilvalið fyrir mig,“ segir Aron Steinn Halldórsson, formaður ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs. Ásta Evlalía Hrafnkelsdóttir, sem einnig situr í ráðinu, tekur í sama streng og segir mikilvægt að sveitarfélög séu með ungmennaráð. „Við unga fólkið erum það sem kemur til með að taka við þjóðfélaginu seinna meir svo það er gríðarlega mikilvægt að við fáum vettvang til þess að tjá okkur og koma okkar skoðunum á framfæri.“

Ungmennaráð eru starfandi í 33 sveitarfélögum á landinu og hafa það hlutverk að vera sveitarstjórnum ráðgefandi um málefni ungs fólks. 

„Mér finnst þetta bara algjör grundvöllur fyrir lýðræði, við erum partur af þessu samfélagi, við byrjum að borga skatta 16 ára þannig að af hverju ættum við ekki að fá að segja skoðun okkar á hlutunum,“ segir Aron. 

Landinn hitti fulltrúa í ungmennaráði Fljótsdalshéraðs og fór með þeim á fund bæjarstjórnar. Þáttinn í heild má sjá hér.