
Mikilvægt að heyra íslenskt mál sem mest
Kennsla barna af erlendum uppruna var tekin fyrir í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um úthlutun fjármagns til grunnskóla. Þar kemur fram að börn af erlendum uppruna eigi oft erfitt uppdráttar, þau kunni ekki íslensku nægilega vel og þurfi meiri aðstoð við námið en íslenskir bekkjarfélagar. Þá fái þau jafnvel ekki næga aðstoð vegna fjárskorts skólans.
Skýrsla norrænu ráðherranefndarinnar, frá því í fyrra, sýnir að börn af erlendum uppruna eiga erfiðara með að fóta sig í íslenska skólakerfinu en gengur og gerist í nágrannalöndunum.
Þreyta próf til að kanna færni þeirra í íslensku
Fjármagni er sérstaklega úthlutað til grunnskóla borgarinnar vegna kennslu þessara barna. Börnum af erlendum uppruna í grunnskólum borgarinnar er gert að þreyta málkönnunarpróf, telji skólinn að þess þurfi. Með prófinu á að greina færni barnanna í íslensku og sjá hversu mörg þeirra þurfi á stuðningi að halda við námið, sem fer fram á íslensku. Niðurstöður prófsins eru flokkaðar í grænan, gulan og rauðan flokk. Fái barn gula eða rauða niðurstöðu í prófinu er talið að það þurfi á aðstoð eða stuðningi að halda við námið.
Niðurstöður úr prófinu frá því í fyrra sýna að 1.797 af 2.294 þeirra barna sem þreyttu prófið á vorönn fengu rauða niðurstöðu. 1.854 af 2.371 sem þreyttu prófið á haustönn fengu rauða niðurstöðu. 327 börn af 2.294 á vorönn fengu gula niðurstöðu og 353 af 2.371 á haustönn. 170 börn af 2.294 fengu græna niðurstöðu á vorönn og 164 af 2.371 á haustönn.
Illa stödd þrátt fyrir að hafa alist hér upp
Af þeim börnum sem fengu rauða niðurstöðu úr prófinu í fyrra voru 45 prósent þeirra fædd á Íslandi en eiga foreldra af erlendum uppruna. „Börnin hafa alist upp hér á landi en eru þrátt fyrir það svona illa stödd með íslenska tungu,“ segir í skýrslunni.
Þetta þarf sérstaklega að leggjast yfir, segir í bókun frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lagði til, á borgarráðsfundi í gær, að fundnar yrðu leiðir til þess að tryggja að börn af erlendum uppruna heyri íslenskt mál nægjanlega oft og vel til að geta meðtekið hana sem sitt fyrsta mál. Þá þurfi að finna skýringar á því hvað geti legið til grundvallar og til dæmis kanna hvort börnin séu í félagsstarfi og íþróttum, eða hvort íslenska sé töluð á heimilinu.
Lagt er til að þessum börnum verði veittur styrkur til að standa straum af gjaldi frístundaheilmilis svo þau geti notað frístundarkort sitt í annað tómstundar- og félagsstarf. Þetta verði gert svo þau geti verið sem mest í umhverfi þar sem íslenska er töluð.
Málkönnunarprófið grunnur að sérstakri úthlutun
Málkönnunarprófið er grunnur fyrir sérstakri úthlutun til þessara barna. Á árinu 2018 var um 181,5 milljón króna úthlutað til borgarrekinna skóla vegna verkefnisins. Skóla- og frístundasvið lagði til að úthlutað yrði 130 þúsund krónum fyrir hvert barn sem fær rauða niðurstöðu, og hlutfall af þeirri fjárhæð fyrir þau börn sem fá gula niðurstöðu. Hins vegar var úthlutunin í fyrra vel innan við 130 þúsund krónur fyrir hvern nemenda sem fékk rauða niðurstöðu úr prófinu.
Til barna af erlendum uppruna teljast börn innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Það er að segja, allir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku.
Fimmtungur leikskólabarna af erlendum uppruna
Spegillinn greindi frá því á árinu að tæplega fimmtungur barna í leikskólum Reykjavíkur er af erlendum uppruna og talar tvö eða fleiri tungumál. Samsetning hópsins er mjög misjöfn eftir leikskólum, allt frá tíu prósentum upp í rúm 80 prósent.
Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur, sagði að börn hefðu ekki verið að koma nægilega vel undirbúin inn í grunnskólana. Snemmtæk íhlutun væri mjög mikilvæg. Þá er talið veigamikið að börn verji um helming vökutíma síns í íslensku málumhverfi þannig að þau nái góðum tökum á tungumálinu. „Það þarf þorp til að ala upp barn, en það þarf tvö þorp til að ala upp tvítyngt barn,“ segir Kriselle Lou Suson Jónsdóttir, brúarsmiður hjá Miðju máls og læsis og filippseyskur móðurmálskennari.
Þá gagnrýnir Nichole Leigh Mosty, fyrrverandi alþingismaður, að tvítyngdum börnum á Íslandi sé kennt á sama hátt og þeim börnum sem hafa íslensku að móðurmáli. Það hafi áhrif á sjálfsmynd nemendanna og trú á eigin getu.
Fréttin hefur verið uppfærð.