Mikilvægt að bregðast við með aðgerðum

19.05.2015 - 22:19
Bregðast þarf við áfellisdómi yfir sameiningu ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu undir stjórn Strætó með aðgerðum, ef framkvæmdin á ekki að vera sveitarfélögunum til ævarandi skammar. Þetta segir málefnafulltrúi landssambands fatlaðra.

Samkvæmt skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar fór nær allt úrskeiðis við framkvæmdina.

Ferðaþjónusta fatlaðra var mikið í fréttum eftir breytingar á kerfinu í byrjun árs. Notendur kvörtuðu undan því að bílar mættu seint eða jafnvel ekki, minnst í tvígang var farið með einstaklinga með þroskahömlun á rangan stað, en steininn tók þó úr þegar 18 ára stúlka gleymdist í nokkra klukkutíma í bíl ferðaþjónustunnar.
Yfirtaka Strætó á ferðaþjónustunni fær harða útreið í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar sem kom út í gær. Þeir sem stýrðu breytingunum hjá Strætó höfðu lítinn skilning á þörfum og sérstöðu viðskiptavina sinna og eftirlit velferðarsviða og velferðarráða sveitarfélaganna brást. 

Bergur Þorri Benjamínsson, málefnafulltrúi Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, segir þetta óumdeilanlegt. „Ef menn eru í einhverjum vafa um hver ber ábyrgðina þá stendur það í skýrslunni. Sveitarfélögin bera ábyrgð á innleiðingunni, samningunum og öllum undirbúningnum, og Strætó síðan á framkvæmdinni.“  Nú þurfi að bregðast við með aðgerðum.

Fötluðum starfsmönnum hjá þjónustuveri Strætó var sagt upp störfum þegar akstursþjónustunni var breytt um áramótin. Þetta er gagnrýnt í skýrslunni. Bergur segir mikilvægt að horfið verði frá þessum uppsögnum. „Ef þetta á ekki að verða einhvers konar minnisvarði sveitarfélögunum til ævarandi skammar, um framkvæmd sem að klúðraðist gjörsamlega, þá verða menn að klára þetta af og líka að ráða það fólk sem var einfaldlega rekið á sínum tíma. Það er mjög mikilvægt að það gerist.“

Uppsagnir annarra starfsmanna eru einnig gagnrýndar. Með uppsögnum allra starfsmanna í ferðaþjónustu fatlaðs fólks hjá Strætó hafi glatast mikilvæg þekking á þörfum notenda og áratuga reynslu kastað á glæ með óljósum rökum.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi