Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mikilvægt að bæði karlar og konur dæmi

26.09.2015 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Það er afar mikilvægt að konur jafnt sem karlar, sem þurfa að leita til dómstóla til að fá úrlausn mála, geti speglað sig í hæstarétti. Þetta segir lagaprófessor. Það skipti máli að konur og karlar taki ákvarðanir á æðstu stöðum.

Þrír sóttu um embætti hæstaréttardómara sem auglýst var í júlí, þar af ein kona. Dómnefnd taldi karlmann hæfastan í starfið. Fyrir eru níu dómarar í hæstarétti, einn þeirra er kona.

Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, skrifaði nýverið grein þar sem hún fjallar um mikilvægi þess að bæði konur og karlar séu skipuð í embætti hæstaréttardómara. Í greininni segir Ragnhildur að afar mikilvægt sé að þeir sem þurfi að leita til dómstóla til að fá úrlausn mála, geti speglað sig í réttinum. Það skipti máli að það sjáist að konur jafnt sem karlar taki ákvarðanir á æðstu stöðum. Ragnhildur var gestur í Vikulokunum á Rás eitt í morgun.

„Það skiptir nefnilega máli alveg eins og með sjálfstæði dómstólanna að það er ekki nóg að þeir séu sjálfstæðir og óhlutdrægir og hlutlausir í raun og veru, þeir verða líka að líta út fyrir að vera það. Þess vegna þarf allt af vera svo pottþétt í kringum þá og allir verða að geta treyst því þegar þeir horfa á réttinn, horfa á samsetningu dómara, að það sé komið eins fram við þá og alla aðra sem kunna að koma fyrir dóminn. Og það sem ég kalla í greininni rökin um speglun, dómstólar andstætt Alþingi, það takmarkast svolítið spegluninni vegna þess að fólk er komið á ákveðinn aldur og það er með ákveðna menntun og þess háttar en það bætir ekki úr þegar það er mikið til af sama kyni,“ segir Ragnhildur.