Mikilvægara fyrir Ísland en fyrirtækin

12.03.2013 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar segir viðræður um fríverslunarsamning milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gríðarlega mikilvægar fyrir Ísland. Þær skipti hins vegar litlu fyrir íslensk fyrirtæki - þau geti flutt starfsemina annað.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland en ef ég tek sem dæmi fyrirtækið sem ég starfa hjá, Össur hf, þá erum við með starfsemi í svo mörgum löndum að við getum einfaldlega flutt starfsemi þangað ef að það hentar betur,“ segir Jón. „Þannig að hagsmunirnir eru miklu meiri fyrir Ísland, heldur en einstaka fyrirtæki.“

Ef samningar takast milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna verður þetta umfangsmesti fríverslunarsamningur sögunnar. Jón segir að það verði ekki auðvelt að ná samningum, sérstaklega vegna landbúnaðarmála. Kreppan ýti hins vegar á aðgerðir og sérstaklega það að vægi Vesturlanda minnkar hratt miðað við Asíuríki. Þess vegna sé lagður svo mikill kraftur í samningaviðræðurnar nú. En Ísland er lítið og gæti auðveldlega lent á milli skips og bryggju.

„Nú er það þannig að ég held að það hafi enginn á móti því að hleypa Íslandi inn. Vandamálið er það hins vegar að við erum svo lítil að það er erfitt að komast á dagskrá, nema þá með einhverjum stærri einingum. Ég ætla kannski ekki að vera með neina dómadagsspá. En þetta undirstrikar það. Það er mjög erfitt fyrir Ísland að eiga ekki aðild að einhverjum stærri hagsmunasamtökum til þess að hjálpa okkur að komast inn í svona viðræður.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi