Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mikilvæg mynd um grimman heim eiturlyfjaneyslu

Mynd: Lof mér að falla / Lof mér að falla

Mikilvæg mynd um grimman heim eiturlyfjaneyslu

11.09.2018 - 11:23

Höfundar

Kvikmyndin Lof mér að falla á mikið erindi við samtímann segir Marta Sigríður Pétursdóttir gagnrýnandi. „Ef það er eitthvert réttlæti í þessum heimi þá kemur þessi mynd til með að opna umræðu um bætt meðferðarúrræði og það hvernig við sem samfélag höfum brugðist því fólki sem hefur orðið fíkninni að bráð og aðstandendum þeirra.“

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Viðhafnarforsýning Lof mér að falla hófst á því að Birgir Örn Steinarsson, sem skrifaði handritið ásamt Baldvini Z, las upp brot úr dagbók Kristínar Gerðar Guðmundsdóttur, en myndin byggist að hluta til á lífsreynslu hennar og dagbókarskrifum. Textanum var varpað upp á skjá í sal 1 í Háskólabíói og Baldvin Z bað áhorfendur um að taka myndir af textanum og deila sem víðast á samfélagsmiðlum með myllumerkinu „ég á bara eitt líf“.

„Þið reynduð að gera svo mikið til að hjálpa mér, en það er ekki hægt. Ég get ekki lifað lengur í klikkuðum haus dóplaus, og ég get ekki heldur verið í dópi…svo það er annað hvort. Svona heldur þetta áfram, streit geðveik í helvíti. Eða dópuð í sannarlegu helvíti. Hvorugt get ég, ég get alls ekki meir. og þetta verður að vera svona, því miður ein enn týnd sálin. En ég myndi harma miklu meira ef ég myndi lifa og gera annað af því tvennu sem ég nefndi að ofan.” 

— Kristín Gerður 

Aðstandendur Kristínar gáfu þeim Baldvini og Birgi Erni aðgang að dagbókum hennar sem eru heimild um líf konu sem var alla tíð mótað af kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir í æsku, síðar fíkniefnaneyslu og alls þess grófa ofbeldis sem fylgdi í kjölfarið. Kristín Gerður náði sér aldrei af þeim áföllum sem hún varð fyrir og lést langt fyrir aldur fram. Myndin er einnig byggð á ítarlegum viðtölum við þrjár ungar konur sem treystu Baldvini og Birgi fyrir lífsreynslu sinni í hörðum heimi fíkniefnaneyslu í Reykjavík. ‘Lof mér að falla’ minnti mig á sjálfsævisögu Kristjönu F., Dýragarðsbörnin, sem fjallar um unga konu sem leiðist út í fíkniefnaneyslu og vændi í Vestur-Berlín á 8. áratugnum. Bókin og kvikmynd sem var gerð eftir henni vöktu gríðarlega athygli og höfðu áhrif á samfélagsumræðu þess tíma.

Vegferð inn í grimman heim

‘Lof mér að falla’ segir frá hinni fimmtán ára gömlu Magneu, í upphafi myndarinnar er hún dæmigerður unglingur – hún á eðlilega fjölskyldu og gengur vel í skóla, það eina sem gefur til kynna einhvern óstöðugleika er að foreldrar hennar eru ekki lengur saman. Líf Magneu umturnast hins vegar þegar hún kynnist hinni átján ára gömlu Stellu sem leiðir Magneu inn í harðan heim sem einkennist af hömlulausri áfengis- og dópneyslu. Á milli stelpnanna kviknar áköf og að mörgu leyti óholl og markalaus vinátta sem á endanum verður að ástarsambandi. Myndin flakkar á milli unglingsára stúlknanna og vegferð þeirra inn í grimman heim eiturlyfjaneyslu og ofbeldis og svo tólf árum síðar þegar leiðir þeirra liggja saman á ný.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég las um myndina, tilurð hennar og þá staðreynd að það eru karlmenn sem miðla hér viðkvæmum reynslusögum kvenna sem hafa orðið fyrir óbærilega hræðilegu ofbeldi af hálfu karlmanna, fylltist ég ákveðnum efasemdum. Það er mikilvægt fyrir þá sem hafa það vald í hendi sér að búa til kvikmyndir sem geta náð til gríðarlegs fjölda áhorfenda og fengið til þess fjármagn, að þeir geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem því fylgir. Það skiptir máli hvernig við segjum sögur sem tilheyra ekki okkar eigin reynsluheimi hvort sem það eru kvikmyndir, ljósmyndir eða bókmenntir.

Miðað við markaðsetningu myndarinnar, plakat sem sýnir innilegt og rómantískt augnablik á milli Stellu og Magneu, var ég með áhyggjur af því að myndin myndi hugsanlega falla í þá gryfju að blætisgera fíkniefnaneyslu, ofbeldi gegn konum og ástir á milli kvenna. Semsagt enn ein kvikmyndin gerð af karlmönnum sem sýnir vægðarlaust ofbeldi gegn konum og hlutgerir þær.

Sem betur fer fellur ‘Lof mér að falla’ aldrei í þá gryfju og Baldvini Z tekst að gera viðkvæmum efniviðnum einstaklega góð skil og hann stendur fullkomlega undir þeirri ábyrgð og trausti sem honum sem leikstjóra og handritshöfundi er sýnt af hálfu kvennanna sem deildu með honum sögum sínum og aðstandendum þeirra og Kristínar Gerðar. Það er augljóst að Baldvin býr yfir mikilli tilfinningagreind og næmni sem skilar sér í áhrifamikilli kvikmynd sem gerir harmleiknum skil án þess að sýna aðalpersónunum vanvirðingu eða svala gægjuþörf linsunnar. Enda á allt hrottalegasta ofbeldið sér stað fyrir utan kvikmyndarammans, við vitum hvað er að gerast og það er nóg. Sama hversu illa farin Magnea er af neyslu og ofbeldi er mennskan aldrei tekin af henni. Það er mikil kúnst að sýna hvernig fíkn og ofbeldi getur leikið manneskjur grátt án þess að gera það að grótesku sjónarspili, en það er mikilvægt að ögra slíkum staðalímyndum um fíkla og ‘Lof mér að falla’ gerir það svo sannarlega og án þess að vera með predikunartón.

Frammistaða sem nístir inn að beini

Með aðalhlutverk þeirra Magneu og Stellu á yngri árum fara þær Elín Sif Halldórsdóttir og Eyrún Björk Jakobsdóttir og leikkonurnar Kristín Þóra Haraldsdóttir og Lára Jóhanna Jónsdóttir túlka Magneu og Stellu á fullorðinsárum. Það má með sanni segja að allir leikararnir í myndinni, í jafnt stórum sem smáum hlutverkum skili sínu mjög vel.

Leikkonurnar ungu eru mjög trúverðugar í sínum hlutverkum og það er aldrei tilgerð eða áreynsla í leik þeirra. Lára Jóhanna túlkar sektarkennd og þjáð innra líf Stellu á eldri árum af mikilli næmni og dýpt. Þorsteinn Bachmann sem fór með hlutverk örlagabyttunnar Móra með svo eftirminnilegum hætti í Vonarstræti, sem kallast að einhverju leyti á við Magneu, er hér í hlutverki föður hennar. Hann er vin í helvíti djöfullegra karlmanna sem misnota hana hvað eftir annað. En honum tekst ekki að bjarga dóttur sinni frá því að falla í hendur þeirra sem vilja henni illt. Það er táknrænt þegar hann gefur Magneu eintak af Meistaranum og Margarítu þegar hann telur sig vera að senda hana á öruggan stað en ekki beint í gin úlfsins. Frammistaða Þorsteins nístir áhorfandann inn að beini um leið og hann fyllir áhorfandann fölsku öryggi um að hann geti verndað Magneu frá  hryllingnum. Því engin foreldraást getur trompað fíkniefnadjöfulinn.

Þannig eru svik og trúarleg stef gegnumgangandi í myndinni. Heimurinn sem ‘Lof mér að falla’ leiðir áhorfandann inn í er bæði guðlaus og án réttlætis þrátt fyrir að nafn Jesú og guðs beri oft á góma í tiltækum meðferðarúrræðum. Magnea er svikin af nánast öllum í kringum sig.

Að öllum öðrum leikurum ólöstuðum þá vinnur Kristín Þóra Haraldsdóttir leiksigur í erfiðu hlutverki sínu sem Magnea á eldri árum, frammistaða hennar lætur engan áhorfanda ósnortinn. Því er líka þakka leikstjórn og meðhöndlun Baldvins á efniviðnum að við sjáum Magneu alltaf sem manneskju, ekki bara sem fórnarlamb eða úrhrak eftir áralanga fíkniefnaneyslu og hryllilegt ofbeldi. Uppbygging myndarinnar og sagan sem er sögð sýnir okkur líka að við gætum öll verið Magnea. Það velur nefnilega enginn að verða fíkill.

Kvikmynd með forvarnargildi

‘Lof mér að falla’ er kvikmynd sem á mikið erindi við samtímann en hér hefur á undanförnum misserum fjöldi ungmenna fallið frá vegna misnotkunar á sterkum lyfjum sem eru í umferð. Eftirminnileg sena í myndinni, tryllt partí sem endar hræðilega, sýnir einmitt hversu stutt bilið á milli lífs og dauða, skemmtunar og harmleiks er þegar fíkniefni eru annars vegar. Þar er kvikmyndatónlist Ólafar Arnalds notuð á áhrifaríkan hátt til að undirstrika harmrænan undirtóninn á djamminu. Það leikur enginn vafi á því að ‘Lof mér að falla er mynd sem hefur forvarnargildi og það er mikilvægt að sem flestir unglingar og foreldrar sjái þessa mynd og ræði saman um efni hennar. Í myndinni kemur líka fram hörð gagnrýni á þau meðferðarúrræði sem eru í boði og hvernig þau geta haft þveröfug áhrif miðað við tilætlunina.

Rótin - félag um málefni kvenna með áfengis og fíknivanda hafa til að mynda barist fyrir bættari meðferðarúrræðum fyrir konur og vakið athygli á því hversu óviðeigandi það er að hafa ekki allar meðferðir kynjaskiptar. ‘Lof mér að falla’ og þá sérstaklega saga Kristínar Gerðar eru vitnisburður um hversu alvarlegar afleiðingar slæm meðferðarúrræði geta haft, þar sem veikir einstaklingar í viðkvæmri stöðu hafa greiðan aðgang að hver að öðrum og neyslutengd misnotkun fær framhaldslíf.

Ég efast ekki um að ‘Lof mér að falla’, líkt og ‘Vonarstræti’ slái öll aðsóknarmet á Íslandi og ef það er eitthvert réttlæti í þessum heimi þá kemur þessi mynd til með að opna umræðu um bætt meðferðarúrræði og það hvernig við sem samfélag höfum brugðist því fólki sem hefur orðið fíkninni að bráð og aðstandendum þeirra. Þær eiga það inni hjá okkur, Magnea og Stella.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Vægðarlaus innsýn í líf fíkla

Kvikmyndir

Vona að myndin opni augu fólks

Ótrúlega erfitt fyrir sálina

Kvikmyndir

Gæti orðið góður fíkniefnaneytandi