Mikill stuðningur við stefnu Trumps

31.01.2017 - 12:32
frá embættistöku Donalds Trumps, 20. janúar 2017.
Frá embættistöku Donalds Trumps, 20. janúar 2017. Mynd: EPA - AFP POOL
Mikill stuðningur er meðal Bandaríkjamanna við hertar aðgerðir í innflytjendamálum. Meirihluti landsmanna vill taka upp sérstaka skrá yfir innflytjendur frá löndum þar sem múslimar eru í meirihluta.

48% Bandaríkjamanna vilja að fólki frá svæðum þar sem hryðjuverkasamtök eru fyrirferðarmikil verði bannað að koma til landsins. Jafnvel þótt það þýði að flóttafólki verði vísað frá. 42% landsmanna voru á andstæðri skoðun. Þetta var niðurstaða könnunar Quinnipiac háskóla, sem gerð var á landsvísu í Bandaríkjunum 5. til 9. janúar, og birt 30. janúar.

Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna 20. janúar. Á föstudaginn var, 27. janúar, undirritaði hann tilskipun sem bannar fólki að koma til Bandaríkjanna, sé það ríkisborgarar eins af sjö löndum, þar sem múslímar eru í meirihluta. Könnunin var gerð fyrir þessa tilskipun. Trump hefur ítrekað heitið því að herða innflytjendastefnu og lýst því yfir að setja eigi tímabundið bann við komu múslíma til Bandaríkjanna.

Samkvæmt könnun Quinnipiac töldu 52% Bandaríkjamanna að innflytjendur frá löndum þar sem múslimar eru í meirihluta, ættu að þurfa að skrá sig sérstaklega hjá alríkisstjórninni. 41% aðspurðra voru á móti þessu.

Könnun Quinnipiac var gerð á landsvísu í Bandaríkjunum 5. til 9. janúar. 899 voru spurðir. Skekkjumörk voru 3,3 prósentustig.

 

Upphaflega stóð í fréttinni að könnun Quinnipiac háskóla hefði verið birt 12. janúar, en ekki 30. janúar, eins og er rétt. Það hefur nú verið leiðrétt. Þá hefur verið hnykkt á því að könnun var gerð áður en Trump undirritaði tilskipun um bann við komu fólks frá sjö löndum til Bandaríkjanna.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi