Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Mikill skortur á dagforeldrum

30.03.2014 - 13:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Mikill skortur er á dagforeldrum á höfuðborgarsvæðinu. Ung móðir hefur leitað í tvo mánuði og hringt í fleiri en tuttugu dagforeldra án árangurs. Hún segir algengt að fólk sæki um dagvistunarpláss fyrir börn áður en þau fæðist.

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, blaðamaður hefur nú leitað að dagmóður fyrir barnið sitt í tvo mánuði án árangurs. Barnið er fimm mánaða og þarf að komast til dagmóður í september. Það var þriggja mánaða þegar Sólrún hóf leitina og sögðu þá margir við hana að hún hefði þurft að byrja fyrr. Lista yfir dagforeldra fann hún á síðu Reykjavíkurborgar. „Það segja allir nei það er ekkert laust en barnið getur farið á biðlista og hann er á biðlistum á nokkrum stöðum.“ Annars staðar voru biðlistarnir líka fullir.

Haft samband við a.m.k. 19 staði
Sólrún segist hafa hringt á að minnsta kosti 19 staði, sem hún hafi skráð hjá sér. Líklega hafi hún alls hringt á rúmlega 20 staði. Henni var bent á að ekki væri mikil von um pláss þó svo barnið væri á biðlista. „Mæður eða foreldrar eru að sækja um fyrir börnin sín í dagvistun þegar þau eru ófædd. Ófædd börn eru komin á biðlista.“

Ætti ekki að þurfa að hringja í allar áttir
Sólrún segir að það kerfi sem dagforeldra starfa eftir sé mjög gallað. „Ég sæi fyrir mér að það væri hægt að gera þetta kerfi alla vega umsóknarferlið mun auðveldara. Væri hægt að hafa miðlægan grunn þar sem maður getur fylgst með umsóknum (...) og þyrfti ekki að vera að hringja í allar áttir.“